9.5 C
Selfoss

10 mest lesnu fréttir ársins 2023

Vinsælast

Helga Guðrún Lárusdóttir, ritstjóri Dagskrárinnar og DFS.is.

Ég vil byrja á því að óska lesendum gleðilegs nýs árs og þakka þeim fjölmörgu aðilum og fyrirtækjum sem við höfum átt í samskiptum við á liðnu ári fyrir dásamlegt samstarf. Eins vil ég þakka þeim fjölda fólks sem hefur lagt það á sig að senda okkur hinar ýmsu ábendingar og aðsendar greinar, efni, pistla og pælingar. Án ykkar framlags ætti okkar fámenna ritstjórn umtalsvert erfiðara með að afla efnis og frétta af ýmsu stórmerkilegu sem á sér stað á landshlutanum okkar sem við myndum alls ekki vilja missa af og fyrir það ber að þakka.

Árið 2023 var sannarlega viðburðaríkt, nóg var að gera um allt Suðurland og áttum við fullt í fangi við að reyna að fylgja eftir þeim viðburðum sem áttu sér stað og öllum þeim fjölda afreka sem Sunnlendingum tókst að áorka. Nú þegar árið er liðið í aldanna skaut og stefnir ekki á endurkomu, þykir mér við hæfi að líta yfir farinn veg og rifja upp tíu mest lesnu greinar DFS.is sem birtust sömuleiðis hér í Dagskránni.

1. Með mölbrotna sál eftir ástvinamissi og einelti

Sigurbjörn Snævar Kjartansson. Ljósmynd: Aðsend.

Hinn hjartahlýi Sigurbjörn Snævar Kjartansson, lyftarastjóri hjá SS á Selfossi, sagði frá í einlægu viðtali í ágústlok hvernig ferðalag hans í átt að tólf spora samtökum hafi verið, en eftir fjölda áfalla á lífsleiðinni hefur honum lærst að fyrirgefa og finna hamingjuna og í dag er hann annar tveggja leiðbeinenda sem leiða starfið Vinir í bata í Selfosskirkju.

2. Hjartnæmir endurfundir í Jórdaníu

Bræðurnir Snorri og Gauti Sigurðssynir faðmast innilega eftir erfiða daga. Skjáskot úr myndbandi frá Fjólu Kristinsdóttur.

Aðfaranótt 7. október var ríflega 120 manna hópur íslendinga staddur í Ísrael þegar stríð braust út í landinu. Var hópurinn staddur í Jerúsalem, aðeins 20 kílómetrum frá átakasvæðinu. Mikil óvissa ríkti meðal ferðalanganna sem urðu að strandaglópum þegar flugvellinum í Tel Aviv var lokað vegna sprengjuhótana. Eftir að hafa ferðast frá Ísrael yfir til Amman í Jórdaníu og farið fótgangandi yfir landamærin, komst hópurinn loks óhultur um borð í flugvél Icelandair. Selfyssingurinn Gauti Sigurðsson var flugstjóri vélarinnar Heklu Aurora og hjartnæmir endurfundir urðu þegar Gauti og bróðir hans Snorri Sigurðsson, sem hafði verið meðal íslendingahópsins, hittust heilir á húfi um borð í Heklu Aurora. Fjóla St. Kristinsdóttir, eiginkona Snorra, fangaði augnablikið á myndband og gaf okkur heimild til að nota meðfylgjandi skjáskot af þeim bræðrum.

3. Hótel Grímsborgir fær nýja eigendur

Páll L. Sigurjónsson og Helga Guðný Margrétardóttir við Hótel Grímsborgir. Ljósmynd: Kea Hótel.

Í júní tóku Keahótel við rekstri á Hótel Grímsborgum í Grímsnesi. Samningur til tuttugu ára var undirritaður og nær hann yfir alla starfsemi hótelsins, veitingastað, fundar- og ráðstefnusali sem og veisluþjónustu. Hótel Grímsborgir er fyrsta hótelið hér á landi sem hlaut 5 stjörnu vottun. Það opnaði fyrst sumarið 2009 og hefur vaxið og dafnað síðan.

4. Nýr yfirlæknir lyflækningadeildar á Selfossi

Helgi Hafsteinn Helgason. Ljósmynd: HSU.

Helgi Hafsteinn Helgason, sérfræðingur í krabbameinslækningum, var í ágúst ráðinn yfirlæknir lyflækningadeildar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi. Helgi tók við stöðunni af Sigurði Böðvarssyni, sem hafði frá 2018 gegnt því starfi, auk framkvæmdastjórnar lækninga og starfa sem krabbameinslæknir á HSU en þeim störfum gegnir hann enn.

5. Styrktartónleikar fyrir fjölskyldu Guðjóns Björnssonar

Ljósmynd: Freepik.

Vörðukórinn, skipaður fólki úr Árnes- og Rangárvallasýslum, hélt sína árlegu vortónleika í Selfosskirkju í apríl. Í ár létu þau allan ágóða af tónleikunum, 483.500 kr., renna til fjölskyldu Guðjóns Björnssonar sem lést í vinnuslysi í mars. Auk þess gáfu kirkjuvörður, kórstjóri og einsöngvari vinnuna sína og Selfosskirkja og Rapid gáfu sína þjónustu, ásamt því að margir kórfélagar borguðu aðgangseyri til styrktar söfnuninni. Guðjón var fæddur árið 1983 og skildi eftir sig eiginkonu og þrjú börn. Hann var bóndi og rak kúabú ásamt konu sinni á Syðri-Hömrum 3 í Ásahreppi. Djúp sorg hvíldi yfir samfélaginu vegna fráfalls Guðjóns.

6. Heklaðar ermar

Heklaðar ermar. Ljósmynd: Hannyrðabúðin.

Prjónahornið okkar góða, sem unnið er í samstarfi við Öldu og Þóru í Hannyrðabúðinni, hefur alltaf notið mikilla vinsælda og árið 2023 var uppskrift að hekluðum ermum á topplistanum. Prjónahornið, sem hefur fært lesendum Dagskrárinnar meira en 250 uppskriftir á síðustu 12 árum, tók sér hlé um og eftir sumarið, en þær stöllur hjá Hannyrðabúðinni þurftu tímabundið frá að hverfa seinnipart árs og höfum við fengið fjölda fyrirspurna frá lesendum vegna þess. Við getum þó glatt ykkur kæru lesendur með því að segja ykkur að í ár er stefnan tekin á að hefja leika að nýju og megið þið búast við endurkomu Prjónahornsins fljótlega undir nýrri yfirskrift: Hannyrðahornið. Vilja Alda og Þóra að auki benda á að myndir af öllum verkefnunum er að finna á Facebooksíðu Hannyrðabúðarinnar og er bæði hægt að fá aðstoð og nálgast allar eldri uppskriftir hjá þeim.

7. Ný Ölfusárbrú víkur fyrir göngum undir Selfoss

Upplognu göngin.

Aprílgabb Dagskrárinnar í ár reyndist ansi vel lesið, en við gerð þess fengum við þá Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Íslands og Leó Árnason, stjórnarformann Sigtúns þróunarfélags með okkur í lið í formi samþykktra gerviviðtala og fundar sem til stæði samdægurs á Sviðinu í miðbæ Selfoss. Auk þess nutum við aðstoðar Svanhildar Jónsdóttur samgönguverkfræðings við trúverðuga nálgun að gabbinu þar sem við lugum því blákalt að vikið hafi verið frá þeirri hugmynd að reisa nýja Ölfusárbrú og að í hennar stað stæði til að „arðbæra verkefnið“ göng undir Selfoss, myndi verða að veruleika. Upplognu göngin áttu að ná frá hringtorginu á Suðurlandsvegi langleiðina að Þingborg, með lyftu upp í miðbæ Selfoss.

8. Best að vera utanbæjartútta

Halldóra Baldvinsdóttir, hársnyrtir og förðunarfræðingur. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Hin fjölhæfa Halldóra Baldvinsdóttir, hársnyrtir og förðunarfræðingur, tók nýlega við rekstrinum á hársnyrtistofunni Stúdíó S á Selfossi og breytti um leið nafni stofunnar í Ópus Studio, en Halldóra rekur Ópus Studio nú bæði á Selfossi og í Hveragerði, þar sem hún er búsett. Halldóra er Reykvíkingur sem hélt að hún myndi aldrei kunna vel við sig annarsstaðar en í borginni en í dag segist hún hvergi annarsstaðar vilja vera en í Hveragerði eða nærsveitum.

9. Heilsubót á Stokkseyri gerð að engu

Sundlaugin á Stokkseyri. Ljósmynd: Árborg.

Linda Ásdísardóttir, íbúi á Eyrarbakka og sundlaugargestur á Stokkseyri, átti mest lesna pistil ársins sem birtist þann 17. júlí, þar sem hún gagnrýndi takmörkun á opnunartíma og loks lokun Sundlaugarinnar á Stokkseyri sem hluta af hagræðingu í rekstri Árborgar. Hún sagði opnunartímann þá þegar af afar skornum skammti, en laugin hafði verið opin í 30 klukkutíma á viku og fór niður í 11 klukkutíma á viku fyrir lokun í nóvember. Til samanburðar væri opnunartími Sundhallar Selfoss 93 tímar á viku sem yrðu að 88 við hagræðinguna.

10. Lilly&Julia´s bistro opnar á Selfossi

.) Bartosz, fyrir miðju, ásamt starfsfólki Lilly&Julia´s Bistro. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Hinn glaðlyndi Bartosz Mójcik, sjálflærður kokkur með tæplega fimmtán ára reynslu úr veitingageiranum, opnaði veitingastaðinn Lilly&Julia´s bistro og veisluþjónustuna Gæða Matur í júníbyrjun. Veitingastaðinn, sem nefndur er eftir tveimur dætrum Bartosz, er að finna að Austurvegi 35 og er konseptið einfalt; ferskur matur, eldaður frá grunni, lítill árstíðarskiptur matseðill, hágæða hráefni og notalegt andrúmsloft í fallega innréttuðu rými. Sérstaklega er rík áhersla lögð á að allt sem kemur úr eldhúsinu sé gert frá grunni og eru girnilegir réttirnir innblásnir af matseld móður Bartosz sem er frá Póllandi.

Nýjar fréttir