0 C
Selfoss

Lilly&Julia´s bistro opnar á Selfossi í dag

Vinsælast

Lilly&Julia´s Bistro, nýr veitingastaður á Selfossi, opnaði að Austurvegi 35 klukkan 17 í dag.

Hinn pólski Bartosz Wójcik, sjálflærður kokkur með tæplega fimmtán ára reynslu úr veitingageiranum, er maðurinn á bakvið Lilly&Julia´s Bistro og Gæða Matur veisluþjónustu, en veitingastaðurinn er nefndur í höfuðið á tveimur dætrum hans.

„Mig hefur alltaf dreymt um að opna veitingastað, ég elska að gleðja fólk með mat. Réttirnir sem við munum bjóða uppá eru innblásnir af matseld móður minnar. Við verðum með einfalt konsept; ferskan mat, eldaðan frá grunni. Lítinn, árstíðaskiptan matseðil, hágæða hráefni, notalegt andrúmsloft í fallega innréttuðu rými og ánægt starfsfólk,“ segir Bartosz í samtali við DFS.is.

Aðspurður um hvað muni aðgreina veitingastaðinn frá öðrum veitingastöðum segir Bartos að ólíkt mörgum öðrum veitingastöðum á Íslandi verði allt á Lilly&Julia´s Bistro gert frá grunni. „Við munum ekki bjóða upp á foreldað kjöt, tilbúnar sósur eða soð úr fötu. Allt verður gert á staðnum. Og það er það sem sker okkur frá fjöldanum. Svo vinnum við að sjálfsögðu með besta bakaríi suðursins, GK bakaríi, svo að við getum boðið upp á besta brauðið á landshlutanum.“

„Einn af okkar einkennisréttum verður kolagrillaður silungur með mango salsa og sætri kartöflu. Fallegur, léttur og ferskur sumarréttur sem bragðast dásamlega. Við stefnum að því að skapa vingjarnlegt, afslappað andrúmsloft og leggjum upp með að öllum finnist þau velkomin til okkar. Við ætlum líka að standa fyrir viðburðum eins og vínsmökkun, pop-up og fleira skemmtilegu. Við viljum að gestunum okkar líði vel og njóti tímans sem þeir eyða hjá okkur,“ segir Bartosz að lokum.

Opnunartímar á Lilly&Julia´s Bistro eru eftirfarandi:

Morgunmatur frá 7-10 mán-lau.
Mánu- til miðvikudaga frá 17-22.
Fimmtu- og föstudaga frá 7-22.
Laugardaga 17-22.
Lokað á sunnudögum.

Meðfylgjandi myndir tók Helga Guðrún Lárusdóttir, blaðamaður DFS.is

Nýjar fréttir