5.6 C
Selfoss

Flexí-hælasokkar

Vinsælast

Það er oft gaman að prófa eitthvað nýtt eða að gera eitthvað öðruvísi en við erum vön. Uppskriftin okkar í dag er að sokkum með óvenjulegum hæl sem oft er kallaður flexí-hæll. Það er auðvelt að prjóna hælinn, hann leggst vel að fætinum og er fallegur að sjá.

Garnið er skemmtileg blanda af bómull, ull og polyacryl til styrkingar og ein dokka nægir í parið.  Þessa sokka er einkar þægilegt að prjóna með Crazy trio prjónunum, þá eru hællykkjur allar á einum prjóni og ristarlykkjur á öðrum.

Efni:

1 dk Creative Cotton Flecky Fleece, prjónar no 3,5 Crazy trio eða sokkaprjónar, 2 prjónamerki.

Uppskrift:

Fitjið laust upp 44 – 48 – 52 l og prjónið stroff, 1 sl, 1 br alls 36 – 38 – 40 umf. Prjónið nú slétt, alls 30 umf. Þá er byrjað að auka út fyrir hælnum. Setjið merki þar sem umferðin byrjar.

Það er aukið út í annarri hverri umferð þannig: prjónið þar til 1 l er að merkinu, lyftið upp bandinu á milli lykkjanna og krossið það til hægri, prjónið slétt í bandið, prjónið 2 l sl (eina eftir merkið) lyftið bandinu og krossið til vinstri, prjónið slétt í bandið. Næsta umferð er prjónuð án útaukningar. Þannig fjölgar um 2 l í annarri hverri umferð. Aukið út þar til þið eruð með alls 66 – 72 – 78 l.

Þá er farið að móta hælinn. Hann er prjónaður fram og til baka yfir 32 – 34 – 36 l (16 – 17 – 18 l hvoru megin við prjónamerkið). Geymið ristarlykkjurnar á sér prjóni/prjónum á meðan.

Prjónið 20 – 21– 22 l sl, takið næstu l lausa af og steypið henni yfir næstu l sem prjónuð er sl,

*Snúið við, takið fyrstu l óprjónaða, prjónið næstu 8 l br, prjónið næstu 2 l br saman. Snúið við, takið fyrstu l óprjónaða, prjónið 8 l sl, takið næstu l lausa af og steypið henni yfir næstu l sem prjónuð er sl.*  Endurtakið þessar 2 umferðir þar til einungis 10 l eru á prjóninum.

Þá er prjónað áfram sl í hring (ristarlykkjurnar eru nú prjónaðar með) 44 – 48 – 52 l á prjónum. Hér er gott að skipta lykkjunum þannig að helmingur sé á ristarprjón og helmingur á sóla. Athugið að skipta þeim þannig að byrjun umferðar er á miðjum sóla. Prjónið 33 – 36 – 39 umferðir og þá hefst úrtaka fyrir tá.

Prjónið 8 – 9 – 10 l sl 2 l saman 1 sl (hér er gott að setja prjónamerki), 1 sl, takið næstu l óprjónaða, prjónið næstu l og steypið þeirri óprjónuðu yfir, prjónið 16 – 18 – 20  l sl, 2 l saman, 1 sl, (hér er gott að setja prjónamerki), 1 sl takið næstu l óprjónaða, prjónið næstu l og steypið þeirri óprjónuðu yfir, prjónið 8 – 9 – 10 l sl. Prjónið næstu umferð slétta.

Prjónið 7 – 8 – 9 l sl 2 l saman, 1 l sl, takið næstu l óprjónaða og steypið yfir næstu l, prjónið 14 – 16 – 18  l sl, 2 l saman, 1 sl, takið næstu l óprjónaða og steypið yfir næstu l, prjónið 7 – 8 – 9 l sl. Prjónið næstu umferð slétta.

Þannig fækkar um 4 lykkjur í hverri úrtökuumferð. Þegar 12 – 12 – 12 l eru eftir á prjónunum eru 2 og 2 l prjónaðar saman út umferðina (6 l eftir á prjónunum). Klippið garnið frá og dragið það í gegnum lykkjurnar sem eftir eru.

Prjónið annan sokk eins.

Gangið vel frá endum. Skolið úr mildu sápuvatni og leggið til þerris.

Uppskrift Þóra Þórarinsdóttir

Nýjar fréttir