9.5 C
Selfoss

Menntskælingar vikunnar

Vinsælast

Í tilefni af 70 ára afmæli Menntaskólans að Laugarvatni, þann 12. apríl nk., ætlum við, í aðdraganda afmælisins, að birta vikuleg viðtöl við gamla nemendur Menntaskólans að Laugarvatni um þeirra upplifun af ML. Fyrstu tveir viðmælendurnir eru þau Leó Ingi Sigurðarson, kennari við ML og Ninna Karla Katrínardóttir, listförðunarfræðingur. 

Hvaða ár varst þú í ML?

Leó: Ég byrjaði haustið 2002 og útskrifaðist vorið 2006.

Ninna: Ég var þar frá 2002-2006.

Við hvað vinnur þú í dag?

 Leó: Ég er heimspekimenntaður og vinn sem kennari í ML, ég kenni lagasmíðar, hljóðupptöku, landafræði og umhverfisfræði. Ég vinn oft sem hljóðmaður á ráðstefnum, árshátíðum og böllum, ásamt því að spila á bassa í hljómsveitinni BOY sem spilar í brúðkaupum og veislum.

 Ninna: Ég er sjálfstætt starfandi listförðunarfræðingur. Ég vinn í kvikmyndum, auglýsingum og leikhúsi og er núna að vinna við sýningu í Borgarleikhúsinu.

 Hvaða sérstöðu telur þú að ML hafi samanborið við aðra menntaskóla á Íslandi?

 Leó: Það sem kemur fyrst upp er smæð skólans. Þegar ég var í skólanum sveiflaðist fjöldinn á milli 120 -140 manns sem voru í skólanum. Það myndast tenging ekki bara við þá sem eru með þér í bekk, sem er auðvitað sérstaða miðað við t.d. fjölbrautarskóla. En það myndast líka tengingar á milli árganga, sérstaklega ef menn deila sama áhugamáli. Ég held að það sem ML hafi sem aðrir skólar hafa ekki er að þroska mann fljótt og örugglega félagslega, það er ekki annað hægt en að taka þátt og vera með.

 Ninna: Það sem kemur fyrst upp í hugann er samstaðan. Það myndast svo góðar tengingar, bæði meðal nemenda en einnig við starfsfólk skólans og ég tel að það sé vegna þess hvað þetta er lítill skóli, öll kynnast og öll standa saman.

 Af hverju varð ML fyrir valinu?

 Leó: Ég bjó nú bara á Laugarvatni og eldri bróðir og eldri systir höfðu farið þangað á undan mér. Móðir okkar hafði verið í skólanum á sínum tíma og allir töluðu vel um hann. Svo var ég í 10. bekk búinn að læðast inn þegar bróðir minn fékk mig til að aðstoða við að græja að koma upp Útvarpi Benjamín, líklega vorið 2002. Ég tók eftir því þá að það var góð stemning í skólanum og mér fannst ég geta átt samleið með þessu fólki sem ég kynntist þarna.

Ninna: Ég fór í ML eftir að hafa verið í eitt ár í FSu. Fjölbrautakerfið hentaði mér ekki, ég skrópaði mig út úr skólanum og fór á Laugarvatn af því að pabbi bestu vinkonu minnar var skólameistari þar. Svo hentaði bekkjarkerfið mér miklu betur. 

Leó kátur í ML.

Áttu þér uppáhalds minningu úr skólanum?

Leó: Já… nokkrar. Fyrsti kossinn, fyrsta sambandið, fyrsti gítarinn, fyrsta ástarsorgin, fyrsta lagið sem ég samdi. Það gerist náttúrulega ótrúlega mikið nýtt í lífi manns á þessum árum. Ef ég verð að velja eina minningu þá er það kannski að frumflytja tónlist með félögum mínum í skólahljómsveitinni Spirit of Moonflower. Við frumfluttum tónlist á að ég held fyrsta Diddanum sem var haldinn líklega 2003 eða 2004. Diddinn er s.s. tónleikakvöld þar sem ML-ingar koma fram og spila tónlist sína fyrir skólann.

Ninna: Það er mjög erfitt að velja en sú fyrsta sem kemur upp í hugann er fyrsta ísveislan sem ég tók þátt í. Kvemel (kvenrembufélag ML) var (og er kannski enn?) með þá hefð að við þurfum að borða ákveðið magn af ís án þess að strákarnir finni okkur. Í fyrstu ísveislunni grunaði þá að við værum að fara að halda ísveislu svo Jón í H-Sel skóflaði okkur öllum inn í hestakerru og keyrði með okkur í tvo klukkutíma um sveitina og strákarnir í bílum á eftir okkur þar til þeir misstu af okkur. Þá fórum við í einhvern sumarbústað þar sem við mokuðum í okkur ís sem var nánast alveg bráðnaður eftir þennan rúnt og ég man að ég var að skófla upp í mig ís með höndunum, sem voru allar út í hestaskít. 

Hvernig upplifun var að fara að heiman og flytja inn á heimavist? 

Leó: Það var spennandi. Það tók á að venjast því að vera með öðrum í herbergi sem var kannski ekki með sama þrifastandar og maður sjálfur. En þetta var mjög þroskandi en líka mikið bull eins og að spila tölvuleiki langt fram eftir öllu um helgar.

Ninna: Það var alveg stressandi en ótrúlega gaman. Fyrstu næturnar átti ég mjög erfitt með að sofna vegna þess að ég var svo vön að sofna út frá hrotunum í pabba mínum en vantaði þær alveg á vistina.

 Ertu ennþá í sambandi við skólafélagana?

Leó: Já, nokkra, en ég vildi að við værum duglegri að hittast strákarnir. Heyri og frétti af því að stelpurnar í árgangnum okkar séu miklu duglegri við að halda sambandi. Kannski er það almennt þannig, ég veit það ekki. 

Ninna: Já, ekki eins mikið og áður en þó eitthvað. Ég er í saumaklúbb með nokkrum af skólasystrum mínum og við reynum að hittast reglulega og erum mikið í samskiptum á samfélagsmiðlum.

Hvers saknarðu mest við að vera í ML?

Ninna í Blítt og létt.

Leó: Það að geta haft fullt af tíma til að stunda hobbíin sín. Það að spila tölvuleiki og músík. Að eyða tíma með félögum í að semja og búa til tónlist er líklega það sem ég sakna mest.

Ninna: Að borða matinn hans Svenna og að geta farið með fötin mín í þvott og fengið þau samanbrotin til baka.

Hvernig telur þú að menntaskólagangan hafi mótað þig sem einstakling?

Leó: Ég held að ég hafi orðið aðeins minni intróverti og opnast félagslega og þannig lært mjög mikið um mannlegt eðli. Held að það hafi kveikt í heimspekingnum í mér, að pæla í fólki. Ég fór að spyrja mig af hverju við erum öll eins en samt svona mismunandi. Hvað veldur?

Ninna: Hún mótaði mig að mjög miklu leyti. Ég lærði að standa með sjálfri mér og ég þroskaðist heilmikið, enda að flytja að heiman mjög ung. Ég tala ennþá um að þessi ár á Laugarvatni hafi verið bestu fjögur ár lífs míns, ég bjó þar á sumrin líka og vann hin ýmsu störf þar og get með sanni sagt að ég varð fullorðin á Laugarvatni. 

Myndir þú mæla með því við sunnlensk ungmenni að fara í ML?

Leó: Klárlega! ML veitti mér rými til að fá að koma til dyranna eins og ég er klæddur. Ég fékk tækifæri á að þroskast og mótast sem einstaklingur. Ef mig langaði að gera eitthvað eins og að halda LAN, spila tölvuleiki saman sveittir í skólastofu. Eða stofna hljómsveit og æfa á hljóðfæri, þá voru engin vandamál bara lausnir. Allir vegir voru færir, flestallar hugmyndir fengu að flakka. Ég bý vel að þessum mótunarárum í dag og tel líklegt að það góða viðmót sem tók við manni í ML hafi blásið í mann mikið hugrekki sem er gulls ígildi.

Ninna: Já, ekki spurning. Ég á tvær dætur á unglingsaldri sem ég er að reyna að hvetja til að fara í ML. Þetta er svo þroskandi og mótandi, að fara svona snemma að heiman og standa á eigin fótum, en þó með stuðning jafningja þinna sem og kennara og starfsfólks. Svo er alltaf hægt að fara heim um helgar til að fá foreldraknús.

Nýjar fréttir