7.3 C
Selfoss

Bóklestur er arfur uppvaxtaráranna í Litlu-Sandvík

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Lýður Pálsson

Lýður Pálsson er fæddur árið 1966. Hann er safnstjóri Byggðasafns Árnesinga á Eyrarbakka, búsettur á Selfossi en ólst upp í Litlu-Sandvík. Að loknu stúdentsprófi frá FSu fór hann í sagnfræði við HÍ og lauk þaðan BA-prófi árið 1996 og MA-prófi á hagnýtri menningarmiðlun 2014. Hann hefur starfað við Byggðasafn Árnesinga frá 1992 og er faðir tveggja upkominna barna og nýorðinn afi.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Á náttborðinu eru oft nokkrar bækur sem litið er í á hverju kvöldi. Oft hending hvaða bók verður fyrir valinu hverju sinni. Sú bók sem oftast er gripið í þessa dagana er sagnfræðibók eftir Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðiprófessor (í leyfi) og forseta Íslands og heitir Stund milli stríða. Landhelgismálið 1961-1971. Í upphafi bókarinnar hafði verið samþykkt að færa fiskveiðilandhelgina út í 12 mílur og litu stjórnmálaöflin á Íslandi mismunandi á þá gerð og mikið var deilt. Þetta er allt rakið í þessari góðu sagnfræðibók. Ýmislegt gerðist á þessum áratug í landhelgismálinu bak við tjöldin og á opinberum vettvangi. Guðni forseti leitaði víða fanga, textinn er  lipur og umfjöllunarefnið áhugavert. Öll sagnfræði vekur áhuga og eitthvað er lesið af sagnfræði á hverju ári. Einnig er á náttborðinu gömul kennslubók í mannkynssögu frá því um miðja síðustu öld en síðari tíma sagnfræðirannsóknir gera efni hennar stundum undarlegt fyrir sagnfræðing á næstu öld á eftir. Bókin Pabbabrandarar eftir Þorkel Guðmundsson var lesin að mestu um jólin og alltaf gaman að grípa í hana. Einnig er á náttborðinu stór þykk bók á ensku um undirstöðuatriði safnafræðinnar sem hefur reyndar verið aðal lesefnið í vetur þar sem diploma-gráða í safnafræði er takmarkið og verður landað í júní. Og að lokum Árbók Ferðafélags Íslands 2023 sem er ný komin út. Efni árbókarinnar er Flóinn milli Ölfusár og Þjórsár eftir Ingu Láru Baldvinsdóttur, Magnús Karel Hannesson og Jóhann Óla Hilmarsson. Það er bók sem ætti að vera skyldulesning á hverju sunnlensku heimili. Efnistökin eru hreint frábær og þeir sem lesa þessa bók verða margs vísari um staðhætti og sögu þessa flata svæðis með einstæða fjallasýn. Það er ekki skautað fram hjá neinu. Ýmsar bækur bíða lesturs frá því um síðustu jól eins og bók Kristínar Svövu Tómasdóttur um Farsóttarhúsið, bók Árna Snævarr um Dýrafjarðarmálið í upphafi 20. aldar, bók Árna Árnasonar gamals kaupamanns í Litlu-Sandvík um landnámsmanninn Ingólf Arnarson og bók Margrétar Júlíu Rafnsdóttur um föður sinn Rafn Júlíusson, þau feðgin afkomendur langalangafa míns Þorvarðar Guðmundssonar í Litlu-Sandvík. Þannig að af nógu er að taka. Af ólíkum ástæðum hafa þessar bækur ratað á náttborðið og þær vekja áhuga hver á sinn hátt.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Þær bækur sem helst höfða til mín eru skáldsögur af öllu tagi, æviminningar og sagnfræði. Bókalestur er því oftar, frekar en hámhorf í sjónvarpi.

Varstu alinn upp við lestur bóka?

Lestur er stór partur af mínu lífi, arfur uppvaxtaráranna í Litlu-Sandvík en foreldrarnir voru bókelskir með afbrigðum. Mamma las fyrir okkur systkinin en ég man ekki svo vel hvaða bækur það voru nákvæmlega, jú myndskreytt bók um Búkollu og önnur eftirminnileg barnabók um mann með mjög langan háls. Bækurnar voru margar. Síðar komu myndasögubækurnar til skjalanna og Ástríkur, Lukku-Láki  og Tinni voru lesnir aftur og aftur. Uppáhalds barnabækurnar eru Elsku Míó minn og Bróðir minn Ljónshjarta báðar eftir Astrid Lindgren. Dásamlegar barnabækur. Mín börn nutu einnig bókalesturs sem var hluti af uppeldinu.

Hvað einkennir svo lestrarvenjurnar?

Lesið er á kvöldin eftir að erli dagsins er lokið. Lögð er áhersla á að klára þær bækur sem byrjað er á hvort sem þær er góðar eða vondar. Sumar bækurnar eru lengi á náttborðinu á meðan einstaka bók er afgreidd á einu kvöldi. Stundum er gert hlé á lestri þykkra bóka á meðan gripið er í eitthvað léttmeti.

Einhverkir uppáhaldshöfundar?

Nei enginn sérstakur uppáhaldshöfundur. Jú ég les allt eftir Halldór Laxness, Sigurð A. Magnússon, Guðjón Friðriksson, Hallgrím Helgason, Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur, Auði Jónsdóttur og Lilju Sigurðardóttur. Bækur Hallgríms Helgasonar 60 kg af sólskini og kjaftshöggum eru dásamlegar. Þær voru lesnar í vetur. Þetta er svona sitt lítið af hverju og sýnir ef til vill að bókmenntasmekkurinn er frekar víðfemur.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Í nóvember gerðist það síðast. Þá var byrjað á endurminningabók Guðna Ágústssonar um æskuárin í Hraungerðishreppi. Lestur hófst kl. tíu að kvöldi og bókin lesin spjaldanna á milli til klukkan þrjú um nóttina. Þessi næturlestur var ekki fyrirhugaður en bókin segir svo skemmtilega frá Flóanum, fólki og atburðum og sögurnar það litríkar að ekki var hægt að leggja hana frá sér fyrr en hún var búin. Guðni er auðvitað einn okkar fremsti sagnamaður. Ýmsar spennusögur eða óvenjulegar grípandi skáldsögur hafa í gegnum tíðina líka rænt svefni.

En að lokum Lýður, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Jú, draumurinn er að verða rithöfundur en verð varla meira en skúffuskáld. En hver veit? Það yrðu sögulegar skáldsögur þar sem atburðir og umhverfi væri þekkt en svo yrði fyllt upp í eyðurnar og tengt við tíðarandann. Draumurinn er að skrifa svona bækur í ellinni þegar safnavafstri lýkur. Menntunin hefur falist í því að koma frá sér texta. Fram að þessu hafa einungis tvær sagnfræðibækur verið skrifaðar af minni hendi, önnur um elsta og sögufrægasta timburhús Suðurlands og hin um farsælan lækni á Eyrarbakka og Selfossi.

___________________________________________________________

Hugmyndir að vænlegum lestrarhestum sendist á jonozur@gmail.com

Nýjar fréttir