11.1 C
Selfoss

Selfyssingar áfram í VÍS-bikarnum

Vinsælast

Selfyssingar mættu Fjölni í 32-liða úrslitum VÍS-bikarsins mánudagskvöldið 21. október. Mikill fjöldi fólks lagði leið sína á leikinn og var stemningin góð.

Bæði lið mættu einbeitt til leiks og gáfu ekkert eftir í byrjun. Gestirnir gerðu sig líklega til að spóla fram úr Selfyssingum undir lok fyrsta leikhluta en heimamenn svöruðu fyrir sig og leiddu í hálfleik með einu stigi, 42-41. Seinni hálfleikurinn fór vel af stað hjá heimamönnum og náðu þeir að koma stöðunni í 66-53, en lengra frá Fjölni tókst þeim ekki að komast. Líkt og Selfyssingar í fyrri hálfleik náðu gestirnir að vinna sig aftur inn í leikinn. Á lokamínútunum var allt í járnum, bæði lið líkleg til sigurs. Selfyssingar reyndust vera sterkari þegar upp stóð og unnu þriggja stiga sigur 94-91 eftir að lokaskot Fjölnis geigaði. Flottur sigur og liðið komið áfram í 16-liða úrslit.

Follie Bogan var með enn einn stórleikinn og spilaði stórt hlutverk á lokamínútum leiksins. Hann endaði með 38 stig og 12 fráköst. Vojtéch Novák var með 14 stig. Ísak Júlíus og Tristan Máni voru báðir með 11 stig, Arnór Bjarki með 9 stig, Ari Hrannar 5 stig, Birkir Máni 3 stig og Óðinn Freyr 3 stig.

Næsti leikur Selfyssinga er á Meistaravöllum í Reykjavík föstudaginn 25. október á móti KV í 1. deildinni og byrjar kl. 19:15. 16-liða úrslit VÍS-bikarsins fara fram 7.-9. desember.

Nýjar fréttir