Í tilefni sumarkomunnar birtum við nú uppskrift að hekluðum ermum. Aðferðin er einföld og fljótleg og garnið vistvænt og fallegt. Það heitir Re-Cotton frá Gründl og er 85% endurunnin bómull og 15% polyester til styrkingar. Áferðin er mött. Í dokkunni eru 100 gr og 150 metrar og þarf 2 dokkur. Heklað er með nál nr 6. Gott er að hafa nokkur prjónamerki við hendina.
Skammstafanir
ll = loftlykkja
kl = keðjulykkja
fl = fastalykkja
bogi = 4 ll, fl í næsta boga síðustu umferðar.
endabogi = 5 ll, fl í síðasta boga síðustu umferðar.
Stærð M
Aðferðin
Byrjað er að hekla fremst á annarri erminni og heklaðir ll bogar í hring, síðan fram og til baka upp á öxl. Þá eru fram- og bakhluti heklaðir í sitthvoru lagi, þeir síðan sameinaðir aftur og heklað fram og til baka fram yfir öxl og að lokum er seinni ermin hekluð í hring.
Það skemmtilega við hekl er að það er oft hægt að halda áfram að skálda í flíkina. Þessi uppskrift getur verið grunnur að peysu ef heklað er niður bolhlutann og sömuleiðis er auðvelt að gera eitthvað meira í hálsmálinu.
Fyrri ermin
Gerið 65 ll og tengið í hring með kl í fyrstu lykkjuna og síðan fl í næstu ll.
* 4 ll, fl í þriðju ll *. Endurtakið * – * út hringinn. Síðasta fl er gerð í þarsíðustu ll. Þá er búin fyrsta bogaumferðin (16 bogar).
Hér eftir er heklað í spíral. Heklið 4 ll og síðan fl í fyrsta boga. Heklið síðan bogana (sjá skýringar) alls 30 hringi.
Axlarhluti 1
Snúið við og gerið endaboga skv skýringu. Heklið boga þar til tveir bogar eru eftir að upphafi umferðarinnar (14 bogar) Snúið við á sama hátt og áður og haldið þannig áfram alls 16 umferðir.
Hálsmál
Setjið prjónamerki sitt hvoru megin við tvo miðju bogana. Snúið við á sama hátt og áður með endaboga og gerið boga að fyrra merkinu (6 bogar). Heklið fram og til baka 18 umferðir, endið á innri kantinum og slítið frá. Byrjið á hinum hlutanum aftan við seinna prjónamerkið og heklið eins og hinn hlutann (endar í ytri kantinum).
Axlarhluti 2
Í fyrstu umferðinni eru hlutarnir sameinaðir með því að hekla 14 ll og gera fl í fyrsta bogann hinum megin. (Hér þarf að hoppa yfir hálfan boga en það verður lagað í fráganginum). Klárið umferðina. Í næstu umferð eru bogarnir heklaðir í 2. 7. og 12. ll. Heklið fram og til baka alls 16 umferðir. Síðasta umferðin ætti að vera á réttunni.
Seinni ermin
Heklið 14 ll og tengið saman í hring með fl í fyrsta bogann í hinni hliðinni.
Í næstu umferð eru bogarnir heklaðir í 2. 7. og 12. ll. Heklið í spíral alls 30 hringi. í síðustu umferðinni eru heklaðar þrjár ll á milli fastalykkjanna. Slítið frá og gangið frá endunum.
Hönnun: Alda Sigurðardóttir