3 C
Selfoss

Messa lita og ljósa í Skálholti

Vinsælast

Aftur verður hægt að messa í Skálholtsdómkirkju sunnudaginn 7. maí kl. 14 eftir miklar endurbætur. Fer vel á því að fyrsta messa eftir endurnýjun beri uppá byrjun maí, með vor í lofti og endurfæðingu náttúrunnar. Skálholtsdómkirkja var frá öndverðu nefnd móðir allra guðshúsa á Íslandi af því að hún var fyrsta dómkirkja fyrsta biskups á Íslandi, Ísleifs Gissurarsonar, og viku síðar er í mæðradagurinn.

Skálholtskórinn syngur og er messan hátíðarmessa með altarisgöngu. Eftir messu býður Skálholtsstaður uppá kirkjukaffi í Veitingastaðnum Hvönn, í Skálholtsskólanum.  Organisti og stjórnandi Skálholtskórsins er Jón Bjarnason. Sr. Kristján Björnsson prédikar og þjónar fyrir altari ásamt fleirum.

Viðgerðirnar hafa tekið örlítið fleiri vikur en upphaflega var áætlað en það er ósk vígslubiskupssins að fólk muni njóta þess því meir að meira var gert en upphaflega var ætlað.

Nánast allt hefur nú verið endurnýjað. Lýsingin er hönnuð af Þórdísi Harðardóttur með áherslu á að lýsa óbeint og beint upp veggi og loft, listgler og altarismynd. Auk þess ætti fólk núna loksins að sjá vel á sálmabókina til söngs. Lýsingin er kostuð af Verndarsjóði Skálholtsdómkirkju með mörgum góðum framlögum einstaklinga og sjóða. Hún er sett upp af Jens Pétri í Laugarási og hans mönnum ásamt brunavarnarkerfi og neyðarlýsingu. Málningin er gjöf frá Málningu ehf. og Múr og Mál hefur verið yfirverktakinn í þessu verki með frábærum mannskap sínum. Allir veggfletir fengu viðgerð og heilspörtlun og voru litirnir valdir í góðu samráði við Minjastofnun þar sem tengiliður okkar og ráðgjafi er Pétur H. Ármannsson. Allar pípulagnir eru nýjar og nýir ofnar og hiti en það önnuðust Símon og menn hans hjá Súperlögnum á Selfossi.

Allir eru velkomnir til Skálholtsdómkirkju þennan sunnudag og áfram í sumar signt og heilagt. Með þessum áfanga er lokið heildarviðgerð á kirkjunni að utan sem lauk í fyrra og innandyra núna auk viðgerða á listgleri Gerðar Helgadóttur og mósaíkmynd Nínu Tryggvadóttur sem lauk 2018. Nú mun helgidómurinn njóta sín til fullnustu og verður allt til prýði á 60 ára afmæli kirkjunnar á Skálholtshátíð 20.-23. júlí 2023.

Nýjar fréttir