10 C
Selfoss

Friðheimar í Biskupstungum

Vinsælast

…Heimur út af fyrir sig

Á dögunum var tíðindamaður Dagskrárinnar á ferð um Biskupstungur og kom víða við þar sem ferðamönnum er fagnað og veittur beini. „Ævintýri enn gerast,“ söng Ómar Ragnarsson forðum og bætti við „í framtíðinni þegar fjörið dvín förum við til tunglsins uppá grín.“ Að aka skógargötur að garðyrkjubýlinu Friðheimum við Reykholt í Bláskógabyggð er eins og að koma í annan heim.

Liliane Zilberman.

Fyrir 30 árum var þetta býli horfið í skóginn og nánast utan alfaraslóðar komið í eyði. En fyrir 60 árum sat fögur parísarstúlka á brúsapallinum, Liliane Zilberman og Njáll Þóroddsson hinn norræni víkingur kom út úr skóginum og með þeim tókust ástir. Njáll var garðyrkjubóndi, kennari, kvikmyndagerðarmaður og bókin Bláu Trén í Friðheimum, sem Liliane skrifaði á frönsku um lífið þeirra og Sigurlaug Bjarnadóttir þýddi á íslensku, er mörgum Tungnamanninum kunn.

Aftur gerðist ævintýri árið 1995 þá komu ungir krakkar úr Breiðholtinu í Reykjavík, Knútur með búfræðipróf frá Hólum og hestamennsku í blóðinu en Helena með græna fingur úr garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi. Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttur urðu ástfangin af staðnum og leist vel á gróðurhúsin gömlu og þennan friðsæla lund, hétu því að endurreisa staðinn, hefja garðyrkju og ríða út á glæstum gæðingum. Þarna hafa þau eignast börn og buru börnin eru fimm og tómataræktun við raflýsingu átti að verða lífsbjörgin ásamt tamningum og hestasýningum.

Gróðurhúsin voru byggð upp og hringvöllur fyrir hestasýningar. Þau heyrðu hringla í evrum og dollurum ferðamannanna á veginum upp að Geysi og Gullfoss. Nú eru 15 ár síðan þau opnuðu Friðheima sem sælureit fyrir fróðleiksfúsa ferðamenn. Hugsið ykkur í hruninu 2008 þá fengu þau 950 gesti og allt lofaði góðu. Í dag tekur fjölskyldan á móti 220 þúsund ferðamönnum í súpu og fræðslu um undur hinna suðrænu ávaxta tómatanna gúrkunnar og allt blómskrúðið sem vex undir gleri og sól af orku jarðhitans. Úti bítur frostið kinn og kalda vatnið er einnig auðlind okkar. Þessum ævintýralegu hjónum hefur tekist svo margt vel þau kunna að senda skilaboð og halda í hendurnar á neytendum frá haga í maga (eins og myndirnar bera vitni um).

Starfsfólkið þeirra kemur allsstaðar að frá einum tíu þjóðlöndum það lærir allt íslensku, og erlendum ferðamönnum þykir gaman að hitta landa sína í heimsókninni. Að koma í gróðurhúsin og borða bestu tómatasúpu í heimi, fræðast um bíflugnadrottninguna, smakka safaríka ávexti sem vaxa á trjánum. Horfa á glæsta gæðinga svífa um hringvöllinn.

Knútur og Helena eru margverðlaunaðir bændur og enn stækka umsvifin. Senn opnar veitingastaður þar sem barinn eru tröllaukið grjót úr Bláfelli eða ofan af Kili. Þar munu brúðhjón gleðjast eftir að hafa gengið í hjónaband í Skálholts- eða Úthlíðarkirkju eða bara við fossinn Faxa á Tungnaréttadaginn. Og svo verður gist í brúðarsvítunni á Hóteli Fagralundi eða á Geysi í Haukadal.

Þennan stað verður fólk að heimsækja og fyrirlestur Knúts á kassanum verða menn að heyra og sjón er sögu ríkari. Friðheimar í eyði 1995 nú koma þar 220 þúsund ferðamenn og á Friðheimum starfa 80 manns  í sumar.

Já ævintýri enn gerast á Íslandi.

Nýjar fréttir