3 C
Selfoss

Með mölbrotna sál eftir ástvinamissi og einelti

Vinsælast

Sigurbjörn Snævar Kjartansson, lyftarastjóri hjá SS á Selfossi, er annar tveggja leiðbeinenda sem koma til með að leiða 12 spora starfið Vinir í bata í Selfosskirkju í vetur. Vinir í bata er félagsskapur fólks sem hefur lent utan vegar vegna áfalla í lífinu, meðal annars vegna veikinda og ástvinamissis.

DFS.is náði tali af Sigurbirni og fékk að kynnast því betur hvað Vinir í bata standa fyrir og hvernig hann endaði sem leiðbeinandi.

Öll velkomin í skóla lífsins

„Ég var hvattur árið 2011, af fyrrverandi sóknarpresti og fyrrverandi heimilislækni mínum, til að skoða 12 spora starf því ég var kominn á vondan stað eftir mörg áföll í lífinu. 12 spor Vina í bata er byggt á 12 reynslusporum AA-samtakana, en í þessum skóla lífsins, eins og ég kýs að kalla þetta, er engin skylda að vera AA-manneskja (alkahólisti) til að koma til liðs við þetta mannbætandi samfélag. Vinir í bata er öllum opið, óháð kyni, trúarvitund og aldri,“ segir Sigurbjörn.

Mátti ekki ræða um erfiðleika og áföll

Sem fyrr segir, hóf Sigurbjörn sína 12 spora vegferð árið 2011 og tók þá þátt í starfinu í þrjá vetur. „Þarna var ég með mölbrotna sál eftir ástvinamissi í fleirtölu og hafði verið tættur niður í skóla af ljótu einelti vegna þess að ég var ekki eins og hinir, aðallega vegna holdafars en ég hef alltaf verið feitlaginn. Þessi áföll voru á þessum árum, frá 1975 þangað til að ég varð fullorðinn maður, en á árum áður mátti helst ekki ræða um erfiðleika og áföll,“ bætir Sigurbjörn við.

Nafnleynd, trúnaður, virðing og traust

Sigurbjörn segir sporin hafa verið þung þegar hann þurfti að opna sig fyrir öðrum. „En stuðningur í fjölskylduhópnum sem ég fékk var ómetanlegur og gaf mér tækifæri til að tala án þess að vera dæmdur. Það sem við köllum fjölskylduhóp eru tveir til sex aðilar í kynjaskiptum hópum. Innan þeirra eru nafnleynd, trúnaður, virðing og traust grundvöllur þess að einstaklingar nái bata og vinni úr fortíðinni því það liðna hverfur ekki, heldur lærum við að sættast við það og lifa í núinu með framtíðina í hjartanu.“

Fyrirgefning gott veganesti í lífinu

Sigurbjörn tók sér svo nokkurra ára hlé frá sporastarfinu en byrjaði aftur fyrir tveimur árum síðan. „Mér fannst virkilega gott að byrja aftur, þarna í millitíðinni hætti ég neyslu áfengis, sem ég sé ekki eftir, þó að ég vilji taka fram að áfengisleysi er ekki skilyrði fyrir því að starfa í þessum félagsskap. Og hvar stend ég í dag? Jú, ég er búinn að sættast við allt og alla með fyrirgefningu gagnvart öðrum og ekki síst sjálfum mér. Að fyrirgefa er einfaldlega svo gott veganesti í lífinu og að skila skömminni þangað sem hún á að vera er lykillinn að bata. Ég sjálfur er nýr einstaklingur í dag og ég hef kynnst hellingi af fólki í þessu sem á nýtt líf í dag.“

Gott tækifæri til að lifa hamingjusömu lífi

„Að koma í sporin er einfaldlega gott tækifæri til að lifa hamingjusömu lífi með sjálfan sig eins og maður er, hvort sem þú trúir á guð eða ekki. Við getum líka bara umorðað guð og kallað hann æðri mátt, séum við efins í trúnni. Máttur bænarinnar er mikill í þessu og er æðruleysisbænin afar góð og segir mikið,“ bætir hann við.

Engin röng svör

Starfið hefst í september og endar í maí í ár hvert, fundir eru vikulega og það er unnið eftir sporabókinni Vinir í bata og viðkomandi vinnur eitt spor fyrir hvern fund heima, með því að svara spurningum. Sigurbjörn segir að öll svör séu rétt og eigi rétt á sér. „Stundum þróast það þannig að einhverjir tveir úr hverjum fjölskylduhóp vinna þetta saman, sé komið mikið traust á milli einstaklinga. Það eru tveir einstaklingar, einn kvenkyns og annar karlkyns, sem eru öðrum innan handar komi upp erfiðleikar eða eitthvað sem viðkomandi vill tala um undir fjögur augu.“

Léttari og brosmildari einstaklingar

Sigurbjörn segir árangur starfsins gjarnan mælast í aukinni gleði þátttakenda. „Viðkomandi verður léttari í lund, brosmildari og eiginlega hann sjálfur í öllu, með meiri þroskavitund um hvað er rétt og rangt og laus við dómhörku og hroka, eitthvað sem viðkomandi hefur byggt upp með sálina fulla af vanlíðan og þunga byrði áfalla. Árangur og sigrar mælast í mörgum glöðum einstaklingum sem hafa lagt allt það erfiða í hendur guðs eða æðri máttar. Að taka þetta skref til bata er virkilega góður kostur í lífinu og gefur okkur tækifæri til að standa með okkur sjálfum og ekki síst með öðrum sem ekki þurfa síður stuðning.“

Framundan eru þrír opnir kynningarfundir Vina í bata í safnaðarheimili Selfosskirkju, sá fyrsti fimmtudaginn 14. september kl. 20. Svo næstu 21. og 28., á sama tíma. Á fjórða fundi er hópunum lokað og hefst þá hið eiginlega sporastarf eftir bókinni Vinir í bata.

Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það,
sem ég fæ ekki breytt
kjark til að breyta því,
sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

„Að velja þetta starf, umfram mörg önnur góð sem til eru, er sannlega góð áskorun til mæta sjálfum sér sem einstaklingi og læra að elska lífið og sjálfan sig upp á nýtt. Ég skora á þig, lesandi góður, að kíkja á kynningarfundina, taka spjall og hlusta á fólk með reynslu í þessu. Ég er vinur í bata.“ segir Sigurbjörn að lokum.

Nánari upplýsingar um starfið, reynslusögur og annan fróðleik má finna hér. Þá bendir Sigurbjörn á appið Lindin mín, þar sem hægt sé að hlusta á sporin og annað efni í gegnum snjalltæki.

Nýjar fréttir