Gullin í grenndinni – samstarf skóla í sveitarsamfélagi

Mynd tekin þegar formlegur samstarfssamningur var undirritaður í Þingborg 7. maí sl. F.v.: Árni Eiríksson, oddviti Flóahrepps, Íris Grétarsdóttir, verkefnisstjóri Flóaskóla, Gunnlaug Hartmannsdóttir, skólastjóri Flóaskóla, Erla Björg Aðalsteinsdóttir, fulltrúi Skógræktarfélags Villingaholtshrepps, Anna Gína Aagested, verkefnisstjóri Krakkaborg, Guðbjörg Hólm Þorkelsdóttir, leikskólastjóri Krakkaborg og Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar.

Nemendur í Krakkaborg og Flóaskóla eru þátttakendur í skemmtilegu og fræðandi verkefni sem heitir „Gullin í grenndinni“. Verkefnið byggir á nokkurra ára reynslu af samstarfi leikskólans Álfheima á Selfossi og Vallarskóla í gegnum skógartengt útinám. Samstarfsaðilar um verkefnið eru Flóahreppur og Skógræktarfélag Villingarholtshrepps. Markmið verkefnisins er að auka þekkingu nemenda á mikilvægi þess að auka kolefnisbindingu úr andrúmslofti með því að efla skógrækt. Verkefnið er einnig unnið í góðu samstarfi við Skógræktarfélag Árnesinga og með ráðgjöf og stuðningi frá Skógræktinni. Nemendur skólanna munu vinna á vettvangi bæði í skógræktarreitnum í Skagaási og á lóð Flóaskóla og Þjórsárvers. Samhliða plöntun og umhirðu í skógarreitunum munu nemendur fræðast um skógarnytjar, fuglalíf, aðrar lífverur og fjölbreytileika vistkerfisins. Verkefnið er vel til þess fallið að auka samstarf á milli skólastiga, auka fjölbreytni í verkefnum nemenda og samþættum námsleiðum. Anna Gína Aagestad, Íris Grétarsdóttir og Ólafur Oddsson sjá um verkefnastjórn og ráðgjöf.

DEILA