5.6 C
Selfoss

Mikilvægt að veita sterka nærþjónustu

Vinsælast

OK festi kaup á tölvuþjónustu TRS lok síðasta árs og hefur sameining fyrirtækjanna gengið vel. Með kaupunum er OK að leggja áherslu á að þjónusta viðskiptavini enn betur á Suðurlandi og halda áfram góðri vegferð TRS á því svæði. Gunnar Zoëga, forstjóri OK, svaraði nokkrum spurningum ritstjóra Dagskrárinnar á dögunum.

Viltu segja frá OK í stuttu máli?
„OK er upplýsingatækni fyrirtæki sem selur notenda- og innviðabúnað, ásamt því að vera í rekstrarþjónustu og ráðgjöf tengdri rekstri og hýsingu. Auk þess bjóðum við vefhýsingu og veflausnaþróun. Við höfum þá skýru stefnu að styðja vel við bakið á fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum á Íslandi og vaxa um leið með íslensku atvinnulífi. Við erum með starfsstöðvar í Reykjavík, Sauðárkróki, Akureyri og núna Selfossi. OK er Framúrskarandi fyrirtæki 2023 og hefur hlotið verðlaun Fyrirtæki ársins þrjú ár í röð fyrir framúrskarandi starfsumhverfi og erum við einstaklega stolt af því.

Hver var hvatinn fyrir ykkur að taka við tölvuþjónustu TRS?
TRS hefur verið að veita góða þjónustu og eru með lausnir sem OK getur stutt vel við. Sú vegferð og áherslur sem TRS er með fellur mjög vel að áherslum OK. Saman trúum við því að við getum veitt enn betri þjónustu fyrir okkar viðskiptavini. Íslensk fyrirtæki og stofnanir eru ekki bara staðsett á höfuðborgarsvæðinu og því finnst okkur mikilvægt að veita sterka nærþjónustu fyrir atvinnustarfsemi vítt og breitt um landið.

Var margt starfsfólk TRS sem kom yfir til ykkar?
Allir starfsmenn TRS sem sinna upplýsingatækni félagsins komu yfir til OK eða 16 talsins. Starfsemin verður áfram á Selfossi og við sjáum mikil vaxtatækifæri á svæðinu, bæði fyrir okkar viðskiptavini en ekki síður starfsfólk sem býr nálægt og hefur hug á að starfa á Selfossi.

Jákvæð viðbrögð við sameiningu OK við tölvuþjónustu TRS

Hvernig hafa viðbrögð viðskiptavina verið við breytingunni?
Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð enda liggja mörg spennandi tækifæri í þessari sameiningu fyrir okkar viðskiptavini. Viðskiptavinir okkar sjá þetta sem sterkara félag til að styðja enn betur við sína starfsemi.

Hvaða nýjungar komið þið með á markaðssvæðið?
Upplýsingatæknigeirinn er sá geiri sem þróast hvað hraðast og mest. Það er því mikilvægt að vera í farabroddi með lausnir og þjónustu sem viðskiptavinir nýta vel til aukins árangurs hjá sér. Við erum að veita grunnþjónustu í rekstri upplýsingatæknimála og bjóðum búnað sem er fremstur í heimi. Með þessu geta fyrirtæki og stofnanir einbeitt sér að sinni kjarnastarfsemi á meðan OK getur séð um heildarþjónustu í upplýsingatækni. Við elskum tölvukerfi og bjóðum upp á Stafrænt faðmlag sem gengur út á að ná utan um verkefni og ná árangri í góðu samstarfi við okkar viðskiptavini.

Hafa fylgt því áskoranir að taka við af rótgrónu fyrirtæki?
Við þekkjum vel þau tækifæri og áskoranir sem fylgja öflugum og rótgrónum fyrirtækjum. OK er sjálft rótgróið fyrirtæki sem hefur farið í mikla endurnýjun á sinni starfsemi með góðum árangri. Sú menning og starfsandi sem er til staðar hjá báðum félögum er að miklu leyti mjög líkt og ætti að falla vel saman til að skapa starfsumhverfi sem verður jákvætt fyrir alla.

Byggja upp tengsl við viðskiptavini og samfélagið

Hver eru næstu skref fyrir OK í þróun þjónustunnar og í að byggja upp tengsl við viðskiptavini og samfélagið á Suðurlandi?
TRS hefur verið í góðu og nánu sambandi við samfélagið á Suðurlandi og mikilvægt að halda því áfram. Við erum að flytja skrifstofuna okkar á nýjan stað í júní. Við verðum með gott aðgengi að þeirri miklu þekkingu sem er til staðar hjá OK ásamt þeim búnaði sem er í farabroddi í upplýsingatækni hverju sinni. Við viljum vera sem næst okkar viðskiptavinum og eiga í virku samtali við okkar viðskiptavini, þannig náum við að veita framúrskarandi þjónustu til okkar viðskiptavina.

Nýjar fréttir