7.3 C
Selfoss

Nemendur FSu vinna afrek í rafíþróttum

Vinsælast

Rafíþróttir (e. esports) eru tiltölulega nýjar af nálinni en í þeim er keppt í tölvuleikjum. Oftast er um að ræða skipulagðar keppnir í fjölspilunarleikjum milli þátttakenda sem keppa ýmist sem einstaklingar eða lið. Að keppa í tölvuleikjum hefur lengi verið partur af tölvuleikjamenningunni og frá síðustu aldamótum hefur áhorf aukist mjög mikið í gegnum vaxandi og bætt netstreymi. Nú eru rafíþróttir orðnar stór þáttur í þróun og markaðssetningu tölvuleikja og taka margir leikjaframleiðendur beinan þátt í að setja upp og styrkja rafíþróttamót.

RÍSÍ er skammstöfun yfir Rafíþróttasamband Íslands sem hefur það meðal annars að markmiði „að styðja þróun og iðkun rafíþrótta á Íslandi” eins og segir í lögum félagsins. Auk þess „að kynna rafíþróttir sem áhugamál sem elur af sér jákvæða menningu, standa fyrir fræðslu um mikilvægi svefns, heilbrigðs mataræðis og spilahátta, efla menntun í rafíþróttum, standa vörð um uppeldislegt gildi íþróttarinnar og heiðarlegan leik og síðast en ekki síst að koma á fót rafíþróttamótum á Íslandi.”

Til að gera langa sögu stutta eru nýafstaðnir Framhaldsskólaleikar RÍSÍ þar sem nemendur FSu gerðu sér lítið fyrir og unnu til fyrstu verðlauna með því að sigra lið Tækniskóla Íslands í spennandi úrslitaleik. Í undanúrslitum sigraði lið FSu lið Fjölbrautaskóla Garðabæjar eftir æsispennandi keppni. Að sögn Pelle Damby Carøe sviðstjóra og dönskukennara við FSu sem heldur utan um liðið ásamt Luis Felipe Torres Meza eiga nemendur í keppnisliði skólans sérstakt og stórt hrós skilið fyrir frammistöðuna því þau hafa að mestu unnið og skipulagt þetta árangursríka verkefni ein og óstudd í allan vetur.


FSu/jöz

Nýjar fréttir