10 C
Selfoss

Kvenfélagskonur selja kærleiksengla og kort til styrktar Sjúkrahússjóði SSK

Vinsælast

Sjúkrahússjóður SSK var stofnaður árið 1952 og hefur tekna til hans verið aflað allar götur síðan með margvíslegum hætti af kvenfélagskonum innan Sambands sunnlenskra kvenna. Frá upphafi hefur tilgangur sjóðsins verið að stuðla að uppbyggingu sjúkrahúss fyrir Sunnlendinga og efla starfsemi þess.

Kærleiksengillinn er mjög falleg og gildishlaðin gjöf, sem hentar vel til tækifærisgjafa, þeir eru líka vel til þess fallnir að safna og prýða heimilið með. Þetta er 4. árið sem kærleiksenglar eru boðnir til sölu fyrir jól. Sunnlenskt listafólk hefur hannað og framleitt englana öll árin, en vinna við pökkun og umsýslu er í höndum kvenfélaga innan SSK. Kærleiksenglar ársins 2018 eru framleiddir af Guðrúnu Sigurðardóttur í Leirbrot og gler, Vík í Mýrdal. Kvenfélögin í Rangárþingi eystra höfðu umsjón með englaverkefninu nú í ár.

Ný kort verða til sölu í ár, bæði jólakort með prentuðum texta og einnig án texta, sem henta vel sem tækifæriskort. Kortin prýðir gullfalleg mynd eftir Sigurlínu Kristinsdóttur frá Fellskoti. Kærleiksengillinn og jólakortin verða til sölu hjá kvenfélögunum á næstu vikum. Jafnframt verða bæði kærleiksenglar og jólakort til sölu í móttöku HSU. Allur ágóði af sölu engla og jólakorta rennur óskiptur í Sjúkrahússjóð SSK.

Frá árinu 1999 hefur Sjúkrahússjóður SSK styrkt HSU um vel á þriðja tug milljóna króna til kaupa á tækjum og áhöldum. Á síðasta ári nam andvirði gjafa til HSU rúmlega tveim milljónum króna. Félagskonur í kvenfélögunum hafa um árabil gefið handunna muni fyrir öll börn, sem fæðast á HSU og hafa þær gjafir verið vel þegnar.

Þess má geta að kvenfélögin innan SSK hafa gefið Heilbrigðisstofnunni margar veglegar gjafir til viðbótar því sem Sjúkrahússjóðurinn hefur gert, einnig styðja kvenfélögin við samfélagstengda starfsemi á sínum félagssvæðum, öldrunarheimili, skóla og fleira.

Það er von okkar að Sunnlendingar og aðrir velunnarar hugsi hlýlega til Kvenfélaganna, og styrki heilbrigðisþjónustu í heimabyggð með kaupum á kærleiksenglum og kortum.

Nýjar fréttir