14.5 C
Selfoss
Home Fréttir Bankasala á óvissutímum

Bankasala á óvissutímum

0
Bankasala á óvissutímum

Íslandsbanki er verðmæt eign í eigu almennings. Hann varð eign ríkissjóðs í uppgjöri um stöðugleikaframlög föllnu bankanna eftir efnahagshrunið 2008. Það var ekki síst fyrir einbeitni og festu fyrrum forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og ríkisstjórnar hans, sem bankinn varð almenningseign og mikilvægt skref stigið í því að kom þjóðinni út úr hruninu.

Ríkisstjórnin áformar að selja um 25% hlut hið minnsta á næstu mánuðum. Salan ber nokkuð brátt að í miðri efnahagslegri óvissu veirufaraldursins. Stjórnarflokkunum, Sjálfstæðisflokki, Framsókn og VG sýnist mikið í mun að selja fyrir kosningar.

Eignarhald ríkisins á tveimur af þremur viðskiptabönkum landsins er ekki heppilegt. Það getur haft neikvæð áhrif að ríkið eigi svo stóran hlut og því fylgir áhætta. Opinbert eignarhald á fjármálafyrirtækjum er talsvert lægra á Norðurlöndum. Það sem einkennir íslenskan fjármálamarkað er að hann er fákeppnismarkaður og bankarnir eru hver öðrum líkir. Það er hagur almennings að breyta því. Aukin samkeppni á bankamarkaði stuðlar að lægri vöxtum, lægri þjónustugjöldum og nýjungum. Slíkum markmiðum er best náð með því að erlendur banki myndi hefja hér starfsemi. Það yrði einnig til þess að efla traust á íslenskum fjármálamarkaði. Draga þarf úr aðgangshindrunum sem eru hér á landi til þess að laða að erlendan banka.

Almenningur virðist ekki sérlega áhugasamur um áform ríkisstjórnarinnar um sölu Íslandsbanka.  Það er skiljanlegt í ljósi þess sem á undan er gengið. Traust á innlendum fjármálamarkaði hefur ekki verið mikið. Regluverk og eftirlit hefur hins vegar verið bætt að nokkru eftir efnahagshrunið. Það eru því minni líkur á að nýir eigendur geti tileinkað sér sömu vinnubrögð og ríktu í aðdraganda hrunsins. Mestar líkur er á því að lífeyrissjóðirnir kaupi stóran hlut í bankanum. Færa má rök fyrir því að það sé ekki æskilegt. Sjóðirnir eru orðnir mjög umsvifamiklir í fjárfestingum í atvinnulífinu og eiga nú þegar umtalsverðan hlut í Arion banka. Sala bankans má ekki leiða til þess að við endum með bankamarkað sem er með veikari samkeppnisgrundvöll en hann er í dag.

Skynsamlegt að bíða þar til efnahagslegri óvissu er eytt.

Miðflokkurinn telur að bíða eigi með sölu Íslandsbanka þangað til óvissa um efnahag bankans liggur fyrir og endurreisn hagkerfisins er hafin. Eins og áður segir er æskilegt að fá erlendan fjárfestir t.d. norrænan banka. Í miðjum veirufaraldri er minni líkur á því og mögulegum kaupendum fækkar. Hámarks verð verður að fást fyrir þessa verðmætu eign fólksins í landinu. Söluandvirðið ætti síðan að nýta til að ráðast í arðsamar framkvæmdir eins og í samgöngum. Skuldir ríkissjóðs þarf einnig að minnka.

 

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins og situr í fjárlaganefnd Alþingis.