Ásdís sýnir vatnslitaverk í Forsæti á Fjör í Flóa

Ein vatnslitamynda Ásdísar sem verður á sýningunni í Forsæti.

Safnið Tré og list í Forsæti í Flóahreppi heldur upp á vorhátíðina Fjör í Flóa með opnun á sýningu Ásdísar Arnardóttur á vatnslitaverkum föstudagskvöldið 24. maí kl. 20:00. Boðið verður upp á léttar veitingar og eru allir velkomnir.

„Myndefnið á þessari sýningu er frá stöðum á landinu þar sem ég annað hvort dvel oft eða þekki vel af fyrri kynnum. Það er Snæfellsnes, Eyjafjörður, Rangárvellir og hálendið inn af Heklu. Umhverfi okkar er aldrei eins, veðrið, birtan og árstíðirnar sjá til þess. Því lengur sem maður fylgist með þessum tilbrigðum því vænna þykir manni um landið,“ segir Ásdís.