8.4 C
Selfoss
Home Fréttir Menningarhús eða -salur?

Menningarhús eða -salur?

0
Menningarhús eða -salur?
Guðmundur Ármann Pétursson.

Það er mikið fagnaðarefni að þingmenn Suðurkjördæmis leggi fram þingsályktunartillögu þar sem skorað er á mennta- og menningarmálaráðherra varðandi uppbyggingu á menningarhúsi / sal fyrir Sunnlendinga.

Að þingmennirnir tilgreini það sérstaklega að menningarhús Sunnlendinga skuli vera frágangur á ófullgerðum 36 ára gömlum sal í miðju hóteli, þar sem sé hallandi gólf, gryfja fyrir hljómsveit og möguleiki á að taka 270 manns í sæti er ekki ásættanlegt nálgun á menningarhúsi fyrir Sunnlendinga.

Verkefnið er þarft og þarf að vera framkvæmt af metnaði. Þingmennirnir nefna sem dæmi um vel heppnuð menningarhús, Hof á Akureyri og Eldheima í Vestmannaeyjum. Báðar framkvæmdir einstaklega vel heppnaðar og í takt við þarfir þeirra samfélaga.

Menningarhús Sunnlendinga er ekki salur í hóteli. Menningarhús Sunnlendinga er sjálfstætt verkefni sem á að vera óbundið af hugmyndum manna frá árinu 1982 sem hófu þá byggingu félagsheimilis fyrir íbúa Selfossbæjar.

Það er rétt að minna þingmennina á að „gamli miðbær“ Sunnlendinga er Eyrarbakki þar sem um aldir var miðstöð viðskipta og þaðan sem straumur menningar, lista og erlendra áhrifa flæddi um Suðurland.

Það færi vel á því að menningarhús Sunnlendinga væri byggt upp á Eyrarbakka og þá með því að gömlu verslunarhúsin, Vesturbúðin væri endurbyggð í sinni upprunalegu mynd og þá sem menningarhús. Á Eyrarbakka ætti slíkt menningarhús rætur og með þeirri framkvæmd væri hægt að bæta fyrir þann ömurlega gjörning þegar húsin voru rifin árið 1950.

Það er rétt að hafa það í huga þegar verið er að ná saman íbúum Þorlákshafnar, Hveragerðis, Selfoss auk annara íbúa svæðisins að þá er „gamli miðbær“ Sunnlendinga Eyrarbakki miðpunktur svæðisins.

Fyrst og síðast þarf að byggja fallegt og vel staðsett Menningarhús fyrir Sunnlendinga þar sem fjölbreytt lista- og menningarstarfsemi getur blómstrað á nútímalegan hátt og við bestu aðstæður.

Guðmundur Ármann Pétursson.