2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Jarmað fyrir kosningar

Jarmað fyrir kosningar

0
Jarmað fyrir kosningar
Heiða Guðný Ásgeirsdóttir skipar annað sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi.

Umræðan um allt að 35% verðlækkun á lambakjöti frá afurðastöðvum til bænda þetta haustið ofan á 10% verðlækkun í fyrra hefur tæplega farið framhjá mörgum. Fólk hefur á þessu skoðanir, misjafnar að sjálfsögðu. Atvinna, heimili og val á búsetu margra sauðfjárbænda riðar til falls, heilu byggðarlögin gætu tekið miklum breytingum og jafnvel lagst af ef búskapur fellur niður á nokkrum bæjum innan þeirrra. Fólk í afleiddum störfum við landbúnað hugsar sinn gang og óhætt er að segja að hinir vanalegu löngu og annasömu haustdagar í sveitum landsins fara fram í skugga þessara áhyggna.

Mitt í öllu þessu brasi má svo sjá ljósa punkta, bjartastur þeirra er hversu margir neytendur og almennir borgarar þessa lands, hafa risið hátt upp á afturlappirnar á samfélagsmiðlum. Á þeim vettvangi hafa íslenskir neytendur lýst yfir stuðningi sínum við sauðfjárbændur og lagt áherslu á nauðsyn þess að hafa öflugan landbúnað. Sláturleyfishafar eru þar gagnrýndir fyrir gamaldags markaðssetningu og framsetningu á lambakjöti og stjórnvöld fyrir seinagang við aðkomu að málinu í heild sinni. Verkin tala líka, girnilegt og vel framsett lambakjötið í kjötborðinu í Costco rýkur út. Stærstur hluti íslenskra neytenda gerir sér nefnilega grein fyrir nauðsyn þess að hafa öflugan landbúnað í landinu og að ríkissframlög til bænda séu ekki ölmusa þeim til handa heldur fjárfesting í landbúnaði, sem er sjaldan mikilvægari en nú á tímum mikilla lofslagsbreytinga sem gerir landbúnað á norðurhluta jarðar að miklu áherslatriði hnattrænt.

Íslenskur sauðfjárbúskapur er gæðastýrður og Landgræðsla ríkisins hefur eftirlit með því að landnýting sé sjálfbær. Aðbúnaður og meðferð sauðfjár á Íslandi er undir eftirliti Matvælastofnunar og gerðar strangar kröfur til bænda um að dýrum í þeirra umsjá líði vel. Það er gott og þannig á það að vera. Gæðastýrð sauðfjárrækt, eins og stunduð er á Íslandi felur einnig í sér kröfur um upprunamerkingu gripa og rekjanleika afurða.

Landbúnaðarstefna Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs er mjög skýr og góð með einmitt fæðuöryggi, lágt kolefnisspor, sálfbæra nýtingu og rekjanleika að leiðarljósi. Vilji VG í leiðum til að styðja sauðfjárræktina út úr yfirstandandi erfiðleikum og marka stefnu til framtíðar liggur mun nær tillögum forystufólks Landsamtaka sauðfjárbænda, sem höfðu verið í smíðum síðan síðasta vetur, heldur en tillögum fráfarandi landbúnaðarráðherra sem varpað var fram í upphafi sláturtíðar. Okkur langar að fá umboð ykkar kjósenda í komandi kosningum til að spreyta okkur á þessum málaflokki á nýju þingi.

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir skipar annað sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi.