-0.5 C
Selfoss

Kótelettukvöldið í Þingborg, hausthátíð Flóans

Vinsælast

Við í ritnefnd Flóamannabókar viljum minna á Kótelettukvöldið í Þingborg laugardagskvöldið 21. október nk., á fyrsta vetrardag. Hátíðin er nokkurs konar uppskeruhátíð í Flóahreppi en í leiðinni rennur allur ágóði af kvöldinu til útgáfu Flóamannabókar sem Jón M. Ívarsson sagnfræðingur frá Vorsabæjarhól er að skrifa. Bækurnar um Hraungerðishreppinn koma út næsta ár, tvær bækur.

Við leggjum upp úr rólegu menningarkvöldi og fögnum komu vetrarins með því að borða saman kótelettur í raspi með ljúfu meðlæti og Kjörís á eftir. Jón Bjarnason, dómorganisti í Skálholti, leikur ljúfa dinnermúsik og Gissur Páll Gissurarson, stórtenór, syngur fyrir samkomugesti. Til skemmtunar er svo „útsvar“ á milli gömlu hreppanna þriggja og sigurvegarinn fær gáfumannabikarinn „Flóa-fíflið,“en þetta er nú grín en hörð og skemmtileg keppni. Ýmislegt annað verður gert sér til gamans og kannski kemur leynigestur?

Nú bið ég alla sem koma vilja að panta strax aðgöngumiða hjá Guðrúnu Tryggvadóttur í síma 894 4448 (grenigrund@islandia.is) eða hjá Sigmundi Stefánssyni í síma 898 6476 (sigmundurstef@gmail.com).

Að lokum vil ég sérstaklega þakka öllum þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa styrkt okkur í ár og þar með gert þessa hausthátíð að veruleika. Góða skemmtun.

Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir