10 C
Selfoss

Tveir vel valdir ketó-réttir

Vinsælast

Matgæðingur vikunnar er Jóhann Ásgrímur Pálsson. Mig langar að byrja á að þakka vini mínum Gunnari Biering Agnarssyni kærlega fyrir áskorunina. Mér finnst gaman að elda og þá sérstaklega þegar ég hef nægan tíma til undirbúnings. Ég hef undanfarna mánuði verið á ketó-mataræðinu og langar að deila með ykkur vel völdum ketó-réttum sem ég hef verið að prófa mig áfram með. Annars vegar andabringur með rauðvínssósu og grænmeti og hins vegar pizzu.

Ketó-andabringur með rauðvínssósu og grænmeti

Uppskrift fyrir 4
3 franskar andabringur (ca. 1 kg
3 skarlottulaukar
0,5 dl balsamikedik
5 dl rauðvín
2,5 dl andasoð eða úr góðum krafti
Ferskt timjan
1 msk. smjör
1 rauð paprika
2 rauðlaukar
1 pk. sveppir
2 stórar gulrætur
500 ml rjómi
Ruccola salatpoki
Lítil jarðarberjaaskja
Askja af kirsuberjatómötum
1 gúrka
Poki af mozzarella-ostakúlum

Aðferð
Í flestum betri stórmörkuðum er hægt að kaupa frosnar andabringur, ég mæli með að þíða andabringurnar í ísskáp yfir nótt og láta svo bringurnar standa við stofuhita í ca. 2 klst. áður en þær eru eldaðar þannig að þær hafi náð stofuhita. Hita ofninn í 200 gráður og svo fituhreinsa bringurnar ef á þarf að halda. Sker tígulrendur í fituna alveg að vöðvanum, krydda með Maldon-salti og pipar og nudda vel ofan í skurðina á fitunni. Því næst set ég andabringurnar á kalda pönnuna það er lykilatriði til þess að fitan verði stökk og hita hana svo upp í háan hita (nota helst grillpönnu) og byrja á að snúa fituhliðinni niður. Steiki í 5 mínútur á fituhliðinni eða þangað til fitan er orðin stökk og sný svo við og steiki hina hliðina í 2 mínútur. Set svo bringurnar inn í ofn sem er 200° heitur og nota bæði yfir- og undirhita í 8 mínútur, tek svo bringurnar út úr ofninum og læt standa í 5 mínútur og sker svo í þunnar sneiðar.

Sósan: Gott er að nota soðið af pönnunni sem öndin var steikt á og bæta út í söxuðum skarlottulaukunum og timjan og sjóða í nokkrar mínútur. Hella svo balsamik-ediki út í og sjóða niður um helming. Sía sósuna og bæta við rauðvíninu og sjóða áfram í potti. Sósan á að vera þykk og sæt á bragðið. Bæta við salti og pipar og rjóma eftir þörfum ásamt kröftum t.d. andakrafti eða nautakrafti. Píska matskeið af köldu smjöri í sósuna í lokin.

Steikt grænmeti: Skera paprikuna, rauðlaukinn og gulræturnar niður í strimla og skera sveppina í þunnar sneiðar. Grænmetið er steikt á pönnu, byrja á að steikja paprikuna, gulræturnar og rauðlaukinn og bæti svo sveppunum við aðeins síðar þar sem þeir þurfa minni steikingu.

Ferskt salat: Skola ruccolasalatið, skera niður gúrku, jarðarber og kirsuberjatómata og bæta við mozzarella-ostakúlum.

Gott er að hafa osta og rauðvín í eftirrétt.

Ketó-pizza
Á okkar heimili hefur skapast sú hefð að baka eða panta pizzu á föstudagskvöldum, þegar ég ákvað að prófa ketó þá fór ég að hugsa með mér hvað ég ætti að borða föstudagskvöldum. Ég komst að því að það er hægt að gera ketó-pizzu sem bragðast ekki ósvipuð og hefðbundin pizza.

Uppskrift (fyrir 1)
1 egg
100 gr. rifinn mozzarella-ostur
Pizzasósa (lágkolvetna), pizzaostur, beikon, sveppir og piparostur

Aðferð:
Byrja á að þeyta eggið og bæti svo við 100 gr. af mozzarella-osti út í og blanda vel saman. Flet út deigið og set á plötu og set inn í 180 gráðu bakarofn í 10 mínútur. Tek botninn út og set á hann pizzasósu, pizzaost, niðurskorna sveppi og piparost ásamt steiktu beikoni sem ég er búinn að steikja á pönnu og skera í bita og set aftur inn í ofninn í 10 mínútur.

Að lokum langar mig að skora á vin minn Hall Halldórsson tannlækni hjá Tannlæknaþjónustunni. Ég veit að hann er mikill matgæðingur og kemur örugglega til með að deila með okkur góðri uppskrift.

Nýjar fréttir