2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Mögnuð endurkoma og staðan 2:1 í einvígi Selfoss og Hauka

Mögnuð endurkoma og staðan 2:1 í einvígi Selfoss og Hauka

0
Mögnuð endurkoma og staðan 2:1 í einvígi Selfoss og Hauka
Sölvi Ólafsson, markmaður Selfoss, ásamt Gunnari Jóni Ingvasyni, stjórnarmanni í handknattleiksdeild Selfoss. Mynd: KB.

Selfyssingar unnu Hauka á Ásvöllum í kvöld 30:32 í framlendum leik í úrslitarimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta. Þetta var þriðji leikur liðanna og er staðan í einvíginu núna 2:1 fyrir Selfoss.

Leikurinn var jafn framan af í fyrri hálfleik og jafnt á flestum tölum. Á 18. mínútu skoruðu Haukar sitt 11. mark og komust í 11:8. Selfyssingar náðu að minnka muninn niður í eitt mark 15:14 áður en flautað var til leikhlés.

Liðin skiptust á að skora fyrstu mínútur síðari hálfeliks en Haukar komust þó þremur mörkum yfir á 37. mínútu 19:16. Þá tóku Selfyssingar leikhlé og náðu í framhaldinu aðeins að laga stöðuna. Haukar sigu síðan fram úr og þegar komið var fram í miðjan síðari hálfleikinn var staðan 24:20. Á 51. mínútu skoruðu Haukar og komust í 26:21 og óhætt að segja að útlitið væri frekar svart hjá Selfyssingum. Þá tók við ótrúlegur kafli þar sem Selfoss skoraði fimm mörk í röð og staðan breyttist í 26:26. Hvort lið bætti við einu marki 27:27 en hvorugu liði tókst að knýja fram sigur á lokamínútunum og því var framlengt.

Í fyrri hluta framlengingarinnar skoruðu Selfyssingar 3 mörk en Haukar 2 og staðan 28:29. Síustu fimm mínúturnar í framlengingunni náðu Selfyssingar yfirhöndinni og unnu að lokum 30:32.

Sölvi Ólafsson markmaður Selfoss átti frábærar mínútur í lok leiksins og í framlengingunni og hafði það sitt að segja. Mörk Selfoss skoruðu: Atli Ævar 10/1, Elvar Örn 6, Hergeir 5, Haukur 4, Árni Steinn 2,  Guðjón Baldur 2, Alexander Már 1, Nökkvi Dan 1 og Guðni 1. Sölvi varði 12 skot og Pavel 7.
Mörk Hauka skoruðu: Brynjólfur Snær 7, Adam Haukur 6, Orri Freyr 5/1 , Heimir Óli 4, Tjörvi 4, Daníel Þór 3 og Ásgeir Örn 1. Grétar Ari varði 12 skot og Andri 3/2.

Fjórði leikur liðanna verður í Hleðsluhöllinni á Selfossi miðvikudaginn 22. maí og hefst hann kl. 19:30. Ef Selfyssingar vinna leikinn verða þeir Íslandsmeistarar. Ef Haukar vinna þarf fimmta leikinn.