6.7 C
Selfoss

Hafðist að kría saman fyrir knatthúsi

Vinsælast

Fyrr í vetur ákvað sveitarstjórn Árborgar að ráðast í stórt verkefni til að bæta íþróttaaðstöðu með byggingu knatthúss á Selfossvelli. Ef áætlanir standast ætti það að geta verið komið í gagnið á miðjum næsta vetri. Húsið bætir umtalsvert aðstöðu og þá sérstaklega fyrir knattspyrnuna. En líka fyrir frjálsíþróttir til að hafa inniæfingaaðstöðu. Að sögn Ástu Stefánsdóttur hjá Árborg bíður húsið líka upp á möguleika fyrir þá sem vilja ganga sér til heilsubótar, eldri borgara og aðra. Þá verður hægt að ganga inni þegar það er hált og kalt og þess háttar. Starfshópur sem sveitarfélagið og ungmennafélagið hafa skipað fulltrúa í er núna að vinna í því að velja þessu nákvæmlega stað á íþróttasvæðinu á Selfossvelli. Að sögn Ástu eru allar líkur á því að þetta verði sunnan við gervigrasið. „Þar fáum við miðsvæðis eitt húsið enn til viðbótar við þau sem við þegar höfum. Þá losnar líka um æfingatíma í hinum húsunum sem eru mjög ásetin. Aðrar greinar geta þá haft aðeins meira svigrúm. Svo þurfum við þá ekki lengur að keyra börn í önnur sveitarfélög á æfingar eins og við erum að gera núna. Þetta er veruleg bót hvað það varðar. Þetta höfum við unnið mjög náið með knattspyrnudeildinni. Hugmyndin kom upphaflega þaðan. Við sáum fyrst ekki að við hefðum í rauninni ráð á þessu. En það hafðist að kría saman fyrir þessu í fjárhagsáætluninni þannig að þetta er að fara af stað,“ segir Ásta.

Nýjar fréttir