10 C
Selfoss
Home Fastir liðir Sunnlenski matgæðingurinn Grillaður góðhestavöðvi með bláum kartöflum

Grillaður góðhestavöðvi með bláum kartöflum

Grillaður góðhestavöðvi með bláum kartöflum
Guðjón Helgi Ólafsson er sunnlenskur matgæðingur.

Guðjón Helgi Ólafsson er matgæðingur vikunnar

Þakka matmóður minni í Gaulverjabæ fyrir traustið, bróðir hennar þurfti engu að kvíða fyrir hönd okkar snúningastráka, við urðum held ég alveg nógu vígalegir.

Uppskriftir nota ég lítið, eins og mér finnst gaman að lesa þær og stúdera. Þær eru bara til viðmiðunar og má alls ekki taka of alvarlega; helst nothæfar við flókna kjarnasamruna og geimskot, þá er víst gott að vera með eitthvað á blaði.

Af því að ég hef ástríðu fyrir vélsleðaferðum, dettur mér í hug að deila með les-endum Dagskrárinnar rétti sem er upplagður kvöldverður í skála eftir skemmtilegan dag á fjöllum. Það getur reynt á sköpunargáfuna að skipuleggja matseld í óbyggðum, fjarri verslunum og nýjustu tækni og gott að flækja málin ekki.

Grillaður góðhestavöðvi með bláum kartöflum

Fyrst er að útvega sér hrossakjöt. Best er það af ótömdum grip sem hefur staðið í grasi upp undir kvið á sumrin, en étið moð og fóðurbætisleyfar frá sunnlenskum mjólkurkúm á vetrum. Góður, þykkur vöðvi tekinn, skorinn í tommu þykkar sneiðar (það eru 2,54 sentimetrar fyrir þá sem hafa alist upp við metrakerfið) og þær settar í tveggja lítra ísbox frá Kjörís með eftirfarandi kryddlegi:

Í einn Múmínbolla er blandað saman: Tamari-sósu, soya-sósu, ólívuolíu, matskeið af Dijon-sinnepi (ekki bara einhverju sinnepi), skvettu af grænu Tabasco, þremur matskeiðum af góðu kanadísku hlynsírópi og einu snafsaglasi af Laphroaig-viskíi, Lagavulin ef það er ekki til. Hræra þar til vel samlagað, hellt yfir sneiðarnar í ísboxinu, lokið sett á og boxið hrist hraustlega (passaðu að lokið sé almennilega fast) og því komið fyrir í kæliskáp fram að brottfarardegi. Boxið hrist kvölds og morgna. Við upphaf ferðar er ísboxið sett í góðan plastpoka sem lokað er með rembihnút, við viljum ekki fá hrossakjöt og kryddlög í sleðatöskuna ef lokið fer af í einhverri rokunni.

Matseldin fer um það bil svona fram: Sjóðum bláar kartöflur í söltu vatni. Þegar suðan kemur upp passar að tendra gasgrill, ef notast er við kolagrill þarf að byrja fyrr. Hellum af kartöflunum þegar þær eru soðnar og setjum kalt vatn á þær í smástund svo að skrælingin verði auðveldari. Kjötið grillað. Kartöflurnar skornar í þykkar sneiðar, settar í álbakka og Feta-osti með kryddolíu blandað saman við, rifnum osti stráð ofan á að auki ef vill. Síðan er annað hvort að brúna ostinn með gasbrennara eða að nota grillið til að bræða hann. Þá ætti kjötið að vera búið að standa passlega lengi og sósan heimalagaða að vera orðin heit.

Sósan já. Hún er góð, en þið fáið aldrei uppskriftina. Aldrei.

Ég skora svo á Guggu mágkonu (Guðbjörgu Huldu Sigurðardóttur) að vera næsti matgæðingur vikunnar, hún er snilldarkokkur.