10 C
Selfoss

Boða til mótmæla vegna verkfalla

Vinsælast

Hópur fólks í Hveragerði hefur boðað til mótmæla við skrifstofur Sambands Íslenskra Sveitarfélaga(SNS) að Borgartúni 30 næsta miðvikudag, 7. júní klukkan 10.
Koma mótmælin til vegna seinagangs í samningsviðræðum BSRB og SNS og vilja þau biðla til allra sem geta, að mæta í Borgartúnið og sýna samstöðu og hvetja þau sem ekki komast til þess að mótmæla fyrir utan sínar bæjarskrifstofur.
Verkfallsaðgerðirnar hafa áhrif á starfsemi í leikskólum og ná til bæjarskrifstofa, hafna, sundlauga og áhaldahúsa víða um land. Meðal sveitarfélaganna sem verkföllin hafa áhrif á eru Árborg, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hveragerði, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra og Ölfus.
Áhaldahús í Árborg verða með skertri starfsemi til 17. júní og bæjarskrifstofur og ráðhús í Árborg og Hveragerði til 5. júlí, sömuleiðis höfnin í Þorlákshöfn.
Sundlaugar og íþróttamannvirki í Árborg, Bláskógabyggð, Hveragerði, Ölfusi, Rangárþingi eystra, Rangárþingi ytra og Grímsnes- og Grafningshreppi, auk leikskóla í öllum framangreindum sveitarfélögum, að Rangárþingi ytra undanskildu, skerða starfsemi sína ótímabundið frá og með deginum í dag, eða þangað til samningar nást.

Börnin þurfa rútínu

Í tilkynningu frá hópnum segir að verkföll hjá ómissandi og mikilvægu starfsfólki í leikskólum bæjarins valdi miklu raski hjá langflestum fjölskyldum og að mikið rót sé á lífi barnanna, sem þurfi flest góða rútínu til að líða sem best.
Þá segir einnig að Hveragerðisbær hafi gefið SNS fullnaðarumboð til kjarasamningsgerðar og að fram komi í tilkynningu á heimasíðu Sambandsins að sveitarstjórnafólk hafi hvorki aðkomu að, né hafi þau áhrif á framgöngu kjarasamningsgerðar SNS.
„Á sama tíma kemur fram í jafnréttisáætlun Hveragerðisbæjar 2023-27 sem bæjarstjórn og bæjarstjóri bera ábyrgð á, undir liðnum varðandi „þjónustu við bæjarbúa“ að leið bæjarins að markmiðinu að tryggja jafnrétti í þjónustu sé meðal annars: Við ákvarðanir um tilhögun þjónustu skal taka mið af þörfum allra og kynbundnum áhrifum hennar. Allt uppeldis- og tómstundastarf, menntun og fræðsla sem fram fer á ábyrgð Hveragerðisbæjar og stofnana hans, hafi jafna stöðu kynjanna að leiðarljósi.“

Kynbundin áhrif óhjákvæmileg

„Þó að við séum komin langt í jafnréttisbaráttunni þá fellur ummönnun barna oftar á herðar mæðra í gagnkynja samböndum, þær eru þá  líklegri til að taka launalaust leyfi til að vera heima með börnum á meðan á verkföllum stendur, sem hefur áhrif á afkomu þeirra og jafnvel starfsöryggi. Auk þess sem það leikskólastarfsfólk sem er í verkföllum núna er stór kvennastétt,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Þá benda þau á að kynbundin áhrif verkfallanna séu óumdeilanleg og hafi áhrif á stöðu kynjanna.
„SNS grípur umboð til kjarasamningsgerðar ekki úr lausu lofti, Hveragerðisbær veitir SNS þetta umboð og getur ekki firrað sig ábyrgð á því. Hvernig sér bæjarstjórn Hveragerðisbær og bæjarstjóri til þess að markmiði jafnréttisáætlunarinnar sé framfylgt í ljósi verkfalla?“
Að lokum segir í tilkynningunni að völdum fylgi ábyrgð og vilja þau hvetja bæjarstjórn og bæjarstjóra Hveragerðis til þess að nýta völd sín gagnvart SNS. „Og axla ábyrgð gagnvart íbúum til þess að semja við okkar ómissandi og mikilvæga leikskólastarfsfólk.“

Nýjar fréttir