0.4 C
Selfoss

Byggingarréttur auglýstur í Árborg – heimamenn útilokaðir frá þátttöku

Tómas Ellert Tómasson, fyrrv. bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg.

Árborg auglýsir nú til sölu byggingarrétt fyrir íbúðarhúsnæði á 3.000m2 lóð við hliðina á Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, Tryggvagötu 36. Mjög dýrmætri lóð í huga margra Selfyssinga sem hafa séð hana fyrir sér sem framtíðarlóð fyrir heimavist FSu. Í auglýsingu sveitarfélagsins kemur fram að leitað sé að kaupanda/fasteignaþróunaraðila sem muni taka að sér að leiða breytingu á deiliskipulagi, hanna, fjármagna og byggja upp íbúðir á lóðinni. Einnig vekur Svf. Árborg sérstaka athygli á því að gerðar séu ríkar kröfur til viðsemjenda hvað varðar reynslu, hæfi og getu til að vinna verkefni eins og þetta. Í sérstökum úthlutunar- og tilboðsskilmálum sem fylgja útboðinu kemur fram að lágmarkskrafa sé að tilboðsgjafi hafi starfað 5 ár samfleytt við þróun og uppbyggingu íbúða.

Heimamenn útilokaðir

Sú krafa að tilboðsgjafi hafi að lágmarki 5 ára reynslu samfleytt af því að þróa slíka reiti og byggja íbúðir, útilokar tvo heimaaðila sem hafa unnið að uppbyggingu í Svf. Árborg sl. ár.  Í fyrsta  lagi útilokar Svf. Árborg, Sigtún Þróunarfélag sem fær skv. skilmálunum ekki að taka þátt þar sem að þeir hófu ekki vinnu við þróun og uppbyggingu miðbæjarins á Selfossi fyrren eftir íbúakosningu sem fór fram í ágúst 2018. Íbúakosningu sem knúin var fram af íbúum sveitarfélagsins. Íbúar knúðu þá, þáverandi meirihluta bæjarstjórnar (D-lista) til þess að hlusta á kröfur íbúa og heimila almenningi að segja sína skoðun á lýðræðislegan hátt. Kosningin fór 60/40 verkefninu í vil og nú síðast 90/10 þegar betrumbæting á skipulaginu var sett í rafræna íbúakosningu. Og enn styttra er síðan að Jórvík hóf sína þróun og uppbyggingu í Nýju-Jórvík.

Einu heimamennirnir sem hægt er að slá því föstu að hafi af því reynslu að hafa þróað og byggt upp slíka reiti samfleytt í yfir 5 ár eru þeir aðilar sem hafa byggt upp reitina við Austurveg 69 á Selfossi og íbúðabyggðina í Dísastaðarlandi.

Hvað veldur því að heimamenn fái ekki þátttökurétt?

Í skilmálum útboðsins er skýrt tekið fram að skipulag T36 reitsins skuli vinna í nánu samstarfi við skipulagsyfirvöld Árborgar. Í ljósi þess hve náið samstarfið á að vera á milli aðila að þá kemur verulega á óvart að skilmálar þessir sem samþykktir voru á fundi bæjarráðs Árborgar þann 1. júní sl. skuli hafa hlotið blessun formanns bæjarráðs og skipulagsnefndar Svf. Árborgar, sem er einn og sami maðurinn. Sami maður og fékk persónulegan fjárstuðning frá ónefndum aðila tengdum Sigtúni Þróunarfélagi í upphafi síns stjórnmálaferils. Og sami maður og hefur í öllum sínum blaða- og vefgreinum minnst á uppbygginguna í miðbænum í fyrstu málsgrein en sleppt því að minnast á hvað aðrir einkaaðilar eru að gera í Sveitarfélaginu.

Hvað veldur þessum sinnaskiptum formanns bæjarráðs og skipulagsnefndar til velgjörðarmanna sinna tengdum Sigtúni þróunarfélagi?

Getur verið að formaður bæjarráðs sé ekki sáttur við þau eignaskipti sem hafa orðið á Sigtúni Þróunarfélagi undanfarið og að skráður eigandi þess félags sé nú Austurbær ehf sem hefur ekki skilað ársreikningi til ársreikningaskrár fyrir rekstrarárin 2021 og 2022, en Svf. Árborg gerði ríkar kröfur um það í upphafi við eignaskipti miðbæjarins og áður en að framkvæmdir hófust í miðbænum að allt væri uppá borðum, eignarhald og fjárstyrkur Sigtúns.

Er framangreint ástæða sinnaskipta formanns bæjarráðs- og skipulagsnefndar í Svf. Árborg og merki um að hann sé nú genginn í lið með hagsmunum Svf. Árborgar?

Nýjar fréttir