11.7 C
Selfoss

Vitleysingar fyrir alla

Vinsælast

Leikgleði og mikill kraftur eru við völd á stóra sviðinu í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þessa dagana. Þar er í boði að sjá leikritið Vitleysingana eftir Ólaf Hauk Símonarson, sem Ólafur Jens Sigurðsson leikstýrir. Leikararnir tíu úr Leikdeild UMFG bregða sér þar í gerfi vinahóps Vitleysinganna sem eiga margt óuppgert við lífið og hópinn, þar sem þeir flækjast um í tíma og rúmi, meðan varpað er ljósi á vanhæfni þeirra.

Vitleysingarnir er rúmlega tuttugu ára gamalt verk, sem var frumsýnt í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Kolsvört neðanmittis kómedía, um vini sem vilja vera ríkir og frægir, en eiga í sígildum vandræðum með lífið og kynlífið, hégómann og græðgina.

Óhætt er að fullyrða að leikararnir slái í gegn í sínum hlutverkum, litlum sem stórum. Þótt leikritið sé á köflum sundurlaust með einhæfum klámbröndurum, er leikurinn og persónusköpunin snilld. Augljóslega líður leikurunum mjög vel á sviðinu og gefa sig í hlutverkin af lífi og sál. Textinn vel fluttur og persónurnar fá þá dýpt sem handritið býður upp á og vel það. Jón Marteinn Finnbogason, er feykiöflugur sem dólgur og athafnamaður. Ingvar Hjálmarsson, óborganlegur lúði, sem sálfræðingurinn. Læknirinn, þingkonan, ritskáldið, sú heimavinnandi, öll framúrskarandi vitleysingar í meðförum Gylfa Sigríðarsonar, Helgu Guðlaugsdóttur, Oddrúnar Ýrar Sigurðardóttur og Magneu Guðmundsdóttur. Flest rokkstig fær svo veitingahúsaeigandinn og klesspían, Sigga, sem Magnea Gunnarsdóttir túlkar. Margbrotin persóna sem við hittum víða í lífinu. Og hún á líka lag við eina söngtextann í leikritinu og söng það sjálf.

Skiptar skoðanir geta verið um hvort Vitleysingarnir séu við hæfi barna. Við létum á það reyna og fórum saman á aldrinum sjö til rúmlega sextíu ára og skemmtum okkur vel á fremsta bekk, þótt það vefðist fyrir okkur eldri að svara spurningum þeirrar yngstu. Leikmyndin, sjúkrarúmið, partíið, hraðinn og krafturinn og hlaup leikaranna út um allt hús, með óvæntum uppákomum úr öllum hornum, sló í gegn. Stelpurnar töldu þó að þetta hefði verið frekar skrýtið fólk, en það er náttúrulega bara eðlilegt, því þetta voru Vitleysingar. Og af þeim má hafa gaman.

                                                         Björg Eva Erlendsdóttir

Næstu sýningar verða í Árnesi sem hér segir:

Þriðja sýning fimmtudagskvöldið 9. mars kl 20
Fjórða sýning laugardagskvöldið 11. mars kl 20
Fimmta sýning sunnudagskvöldið 12. mars kl 20

Miðapantanir í síma 8691118 eða á gylfi1sig@gmail.com

Nýjar fréttir