9.5 C
Selfoss

Laufið – Fyrsta græna upplýsingaveitan

Vinsælast

Raquelita Rós Aguilar, framkvæmdastjóri Laufsins kom í heimsókn til okkar hjá Dagskránni á dögunum og kynnti fyrir okkur byltingarkennda græna upplýsingaveitu sem ber nafnið Laufið.

„Laufið er stafrænn vettvangur fyrir fyrirtæki í vegferð að sjálfbærum fyrirtækjarekstri og jafnframt fyrsta græna upplýsingaveitan á Íslandi. Hugbúnaðurinn okkar leiðir fyrirtæki áfram í raunhæfum aðgerðum sem geta haft mikil áhrif á að draga úr umhverfisáhrifum þeirra. Allt sem fyrirtæki gera svo í kerfinu birtist svo á upplýsingaveitunni laufid.is. Þar geta neytendur séð hvernig fyrirtæki, sem eru í Laufinu, eru að standa sig í umhverfis- og sjálfbærnimálum og borið saman fyrirtæki. Þannig valdeflum við bæði fyrirtækin til að standa sig gagnvart umhverfinu og þar af leiðandi sínum viðskiptavinum en einnig neytendur sem geta tekið upplýstari ákvörðun hvar og við hverja þau stunda viðskipti. Sýnileikinn er mikilvægur fyrir fyrirtækin og kitlar keppnisskapið hjá viðskiptavinum okkar. Mikill metnaður er hjá mörgum fyrirtækjum að vera framarlega á sviði umhverfis- og sjálfbærnimála og geta sýnt þann árangur, bæði sínum viðskiptavinum en einnig til að vera fyrirmynd fyrir önnur fyrirtæki,“ segir Raquelita. 

Stjórnendakerfi Laufsins er stafrænn vettvangur sem hjálpar stjórnendum áfram í einföldum en mikilvægum aðgerðum sem draga úr umhverfisspori og hjálpa til við að stuðla að ábyrgu samfélagi.

Raquelita segir að hingað til hafi þau hjá Laufinu lagt áherslu á að ná til lítilla og meðal stórra fyrirtækja sem þurfi stuðning við að framkvæma fyrstu skrefnin í sinni sjálfbærnivegferð eða vita ekki hvar þau eigi að byrja „Stærri fyrirtæki eða fyrirtæki sem eru komin vel á veg í sinni vegferð geta að sjálfsögðu nýtt sér hugbúnaðinn og erum við með viðskiptavini sem falla þar undir, enda er hugbúnaðurinn er hugsaður fyrir allar tegundir og stærðir fyrirtækja.“

Þá segir Raquelita að laufakerfið vinni vel með öðrum lausnum og þjónustum sem eru á markaðnum og er kerfið hugsað sem verkfærakassi fyrirtækja þar sem að þú getur komið með þín verkfæri hvaðan sem er. „Sem dæmi þá setja fyrirtæki inn þær vottanir sem að þau hafa öðlast, merkja við þau skref eða aðgerðir sem þau hafa nú þegar tekið og þannig höldum við utan um vegferðina þeirra á einum stað með þann valkost að hafa meiri sýnileika út á við.“

Umhverfisstefnur á mannamáli

„Samhliða hugbúnaðinum bjóðum við upp á ýmsa aðra þjónustu eins og ráðgjöf frá sérhæfðum sjálfbærniráðgjöfum okkar, kolefnisútreikning, tillögur að samdrætti eða kolefnisbindingu og fræðslu. Þar má nefna vinnustofur og fyrirlestra sem fyrirtæki hafa óskað eftir frá okkur ásamt því að aðstoða við umhverfisstefnu þeirra en við leggjum okkur fram við að hafa hlutina eins einfalda og hægt er, og á mannamáli,“ segir Raquelita og brosir sínu breiðasta.

„Hugmyndin að Laufinu varð almennilega til árið 2020 og hefur mikil gagnaöflun átt sér stað síðan þá til að styrkja stoðir hugmyndarinnar. Snemma í þróunarferlinu var leitað til fjölbreyttra sérfræði- og þekkingaraðila eins og til Umhverfisstofnunnar, Landverndar, Ungra umhverfissinna og fleiri aðila til að rýna hugmyndina og styrkja hana enn frekar. Það hefur því verið virk þekkingaröflun og samtal við þekkingaraðila og viðskiptavini sem mun vera lykilverkfæri í áframhaldandi viðskipta-, hugbúnaðar- og efnisþróun,“ heldur Raquelita áfram.

Þá segir Raquelita að við þróun á Laufakerfinu hafi viðmið vottana eins og Svansins, ISO 14001, Evrópublómsins, Bra Miljöval og Bláa Engilsins verið rýnd. „Einnig voru viðmið flokkunarkerfis ESB, European Commission GPP, Handbók Festu og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðana skoðuð, svo eitthvað sé nefnt. Það er mikilvægt að það komi fram að Laufið er ekki vottunaraðili en hugbúnaðurinn byggist aftur á móti á fyrrgreindum viðmiðum.“

„Græn skref atvinnulífsins, sem eru hluti af Laufakerfinu, eru einnig að stórum hluta byggð á Grænum skrefum Umhverfisstofnunnar sem stofnunin hefur rekið síðan 2014. Aðlögun á grænu skrefunum í hugbúnaðinn hefur verið unnið í góðu samtali við Umhverfisstofnun,“ segir Raquelita.

Hafnarfjarðarbær er með metnað

Í nóvember í fyrra gerðu þau hjá Laufinu samstarfssamning við Hafnarfjarðarbæ, en bærinn leggur mikla áherslu á sjálfbæra þróun í starfsemi hafnfirskra fyrirtækja og stofnana. Raquelita segir að samstarfið gangi út á fræðslu, innleiðingu stofnana og fyrirtækja í Laufakerfið og ráðgjöf varðandi sjálfbærni. „Samstarfið er búið að ganga ótrúlega vel og gaman að sjá metnaðinn hjá starfsmönnum bæjarskrifstofunnar en við skipuleggjum kynningar- og innleiðingarfundi í þéttu samtali við þau. Þennan metnað má líka sjá hjá stofnunum bæjarins en við erum að innleiða þær núna hverja af annarri og margar hverjar komnar nokkuð langt í sinni vegferð.“

Pappír vs. samfélagsmiðlar

Þá segir Raquelita að á kynningarfundunum Laufsins fái þau allskonar spurningar eða hugleiðingar og reglulegarathugasemdir með að pappír sé ekki umhverfisvænn. „En það sem margir hverjir vita ekki er að rúmlega helmingur skógarhöggs heims er notað til eldsneytis og aðeins 13% er notað í pappírsframleiðslu. Fyrir utan að í dag er pappír framleiddur úr sjálfbærum nytjaskógum sem sérstaklega eru ræktaðir fyrir pappír en pappír er líka endurnýjanlegur“.

„Ég sá heimildarmynd um daginn sem að nemendur við Tækniskólann gerðu, sem sýndi fram á fáránlegar staðreyndir þegar kemur að stafrænum miðlum og mengun þeirra. T.d. að ef þú horfir á Netflix í 30 mín þá mengar þú jafn mikið eins og bensín eða diesel bíll sem keyrir 6 km. Eða að vinsældir lagsins „Despacito“, í gegnum streymisveitur, notaði meira rafmagn en löndin Chad, Somalia, Sierra Leon og Mið-Afríku lýðveldin notuðu öll samanlagt árið 2017. Þannig að ég hugsa alltaf þegar fólk fer að tala um pappír í samhengi við umhverfissóun „Hvað ertu búin/n að eyða miklum tíma á samfélagsmiðlum eða streymisveitum þessa vikuna, veistu hvað þú ert búin/n að sóða mikið út með rafrænum hætti?” Það kostar nefnilega umhverfið okkar að halda uppi öllum þessum gagnaverum og gagnaþjónum, það eru bara ekki allir að sjá þetta í því samhengi. Að því sögðu þá hvet ég alla til að „unsubscribe-a” alla óþarfa markpósta í pósthólfinu sínu því að þeir sóða líka út,“ segir Raquelita.

Af hverju Laufið?

„Það er hagræðing í fyrirtækjarekstri að taka skrefin í átt að sjálfbærum og umhverfisvænum rekstri. Við höfum upplifað það að fyrirtæki og stofnanir hafa dregið úr rekstrarkostnaði með því að fylgja Laufakerfinu og Grænum skrefum atvinnulífsins, t.d. eins og orkureikninga, sorphirðu og þ.h. Það er líka annað sem vert er að hafa í huga, flest framsækin fyrirtæki eru farin af stað í þessa vegferð því að þau vita að komandi kynslóðir velja þjónustu og störf út frá þessum þáttum og ef að fyrirtæki eru ekki að standa sig í þessum málum þá fara þau annað. Það sem að við verðum að átta okkur á er að eftir u.þ.b. 7 ár verða alpha, Z og Y kynslóðirnar um 80% af vinnuafli heimsins, sem eru 35 ára og yngri, en samkvæmt Íslensku kynslóðamælingunni eru þetta kynslóðirnar sem eru hvað mest meðvitaðar um áhrif umhverfis- og sjálfbærnimála og hafa áhyggjur af hlýnun jarðar. Laufið gefur því fyrirtækjum samkeppnisforskot, hugarró og stuðning ásamt sýnileika til almennings,“ segir Raquelita að lokum.

Nýjar fréttir