7.3 C
Selfoss

Menntaskólinn að Laugarvatni 70 ára 

Vinsælast

Menntaskólinn að Laugarvatni er þriðji elsti framhaldsskóli landsins og var stofnaður þann 12. apríl 1953. Haldið verður upp á stórafmæli skólans með hátíðardagskrá og opnu húsi þann 12. apríl 2023. Menntaskólinn að Laugarvatni þjónar Suðurlandinu öllu en hefur frá fyrstu tíð innritað nemendur víðsvegar að af landinu. Við skólann eru heimavistir og nánast allir nemendur skólans íbúar á heimavistinni sem ljær skólanum og starfi hans hlýlegan blæ sem skapast af sterkum tengslum. Sterkar hefðir sem grundvallast í 70 ára arfleifð hafa mótað skólastarfið og ekki síst þann kærleiksanda sem skólasamfélagið einkennist af.

Í raun má þó líta þannig á málið að saga Menntaskólans að Laugarvatni hefjist við stofnun Héraðsskólans á Laugarvatni árið 1928 og því um ríflega aldarsögu að ræða. Böðvar Magnússon og Ingunn Eyjólfsdóttir seldu jörð sína svo að hægt yrði að reisa skóla á Laugarvatni. Jónas Jónsson frá Hriflu varð menntamálaráðherra árið 1927 og var talsmaður þess að skóli yrði stofnaður að Laugarvatni og fór svo að Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, teiknaði húsnæði Héraðsskólans og verður að teljast með glæsilegustu byggingum á Íslandi. Það var svo Bjarni Bjarnason, skólastjóri héraðsskólans, sem barðist ötullega fyrir því að stofnaður yrði Menntaskóli að Laugarvatni árið 1953 en sú barátta tók sex ár lauk með því að við Laugarvatni reis menntaskóli.

Náttúru- og útivistarparadísin Laugarvatn

70 árum síðar er enn blómlegt starf í Menntaskólanum að Laugarvatni og mikið líf og fjör, eins og vera ber með 16-19 ára nemendahóp. Við skólann starfa tæplega 40 manns og þar nema á bilinu 130-150 nemendur hverju sinni. ML er einstaklega lánsamur að hafa yfir öflugu og faglegu starfsliði að ráða sem leggur metnað sinn og alúð í að hlúa að nemendum og velferð þeirra. Skólastarfið er öflugt og blómlegt og nýtur þess að vera staðsett í náttúru- og útivistarparadís að Laugarvatni. Útivist, tónlist og leiklist hafa ætíð sett sterkan svip á skólastarfið og sem dæmi átti ML á fyrri árum til að tjalda sterkustu bridge spilurum landsins. Tryggð nemenda við skólann og umhverfi hans og fólkið á staðnum er óviðjafnanleg og nemendasamfélagið er öflugt.

Tryggð útskrifaðra ML-inga við skólann er einstök og ár hvert júbílera útskrifaðir nemendur við skólann og þá snúa 5, 10, 15 og svo framvegis, ára stúdentar aftur að Laugarvatni og eyða saman einni kvöldstund í gamla skólanum sínum. Margir júbílantar eru einnig viðstaddir útskrift og samfagna þannig  með nýjum stúdentum. Útskriftarárgangarnir vinna saman að því að færa skólanum gjafir og býr skólinn að miklu ríkidæmi í samfélagi útskrifaðra ML-inga. Því það er sannarlega ævilangt hlutverk að vera ML-ingur. Sameiginleg reynsla skapar tengsl og árin þrjú til fjögur sem fólk dvelur í samneyti við jafnaldra sína á mótunarárunum marka djúp spor í ungar sálir og skapa tengsl sem oft vara ævina á enda.

Lífsreynsla að dvelja á heimavist

En hvert er hlutverk framhaldsskóla í sveit í nútímasamfélagi? Fyrst og fremst að tryggja nemendum aðgang að öflugu bóknámi en ekki síður að hlúa að þeim nemendum sem stunda nám við skólann og stuðla að því að þau fari með sterkan grunn út í lífið að lokinni dvöl við skólann. Dvöl á heimavist eflir félagsþroska svo um munar og félagslífið, félagsskapurinn og samveran verður oft og tíðum grunnur að vinasamböndum sem endast nemendum ævilangt. Að dvelja á heimavist með jafningjum sínum og oftar en ekki bestu vinum er mikil lífsreynsla og sameiginleg reynsla þeirra sem dvelja hér saman mótar einstaklinga til framtíðar. Ekki síst í því ljósi að hér er samfélag sem nemendur tilheyra en það að tilheyra er það sem við flest þráum, að eiga bakland, að finnast maður tilheyra samfélagi þar sem maður skiptir máli.

ML vill tileinka sér faglega nálgun á flest það sem máli skiptir. Til að mynda látum við jafnrétti okkur varða og hér má líta mynd af nemendum fyrsta bekkjar á málþingi kynjafræðinema sem haldið var í hátíðarsal Háskóla Íslands. ML hefur verið í fremstu röð varðandi kennslu kynjafræði í áraraðir enda er hún skyldufag á fyrsta ári í skólanum. Kynjafræði skoðar staðalímyndir og stöðu kynjanna á ýmsum sviðum samfélagsins út frá kenningum félagsvísinda. Auk þess er komið inn á fleiri félagslegar breytur eins og kynhneigð, kynþátt, holdarfar og fleira. Nemendur læra að líta gagnrýnum augum á ýmsa hluta menningar okkar eins og atvinnulífið, fjölmiðla, klám, klámvæðingu, ofbeldi og fleira. Í kynjafræðináminu gefst tækifæri til þess að setja upp hin svokölluðu kynjagleraugu þar sem skoðuð eru valdatengsl kynja og kynhlutverka.

Lýðræðisleg nálgun á félagsstarf og virk þátttaka nemenda í skóla- og félagsstarfi er grundvöllur blómlegs félagslífs í ML og gott uppeldi fyrir unga fólkið enda viljum við að þau verði virkir þátttakendur í lýðræðissamfélaginu á Íslandi. ML er skóli hefða og nemendur og starfsfólk finna fyrir þeim ríku hefðum og þeirri sögu sem fylgir skólanum. Hefðir þarf þó að endurskapa í ljósi breyttra tíma og nemendur fá að taka virkan þátt í að endurnýja og endurskapa hefðir eins og við á en einnig er þeirra hlutverk að standa vörð um það sem er gott grundvallað í kærleika, því það má ekki glatast. Stjórn nemendafélagsins í ML starfar náið með stjórnendum og hér má sjá nýkjörna stjórn Mímis sem tók til starfa nú í febrúar 2023.

Á afmælisári skólans sendir ML Sunnlendingum öllum heillakveðjur og þakkar fyrir farsælt samstarf undanfarinna 70 ára. Heill sé Menntaskólanum að Laugarvatni og hann lengi lifi!

Jóna Katrín Hilmarsdóttir, 
Skólameistari ML 

Nýjar fréttir