7.8 C
Selfoss

Verum í sitthvorum skónum á morgun

Vinsælast

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars beinum við sjónum að kynjamisrétti í öllum myndum og spyrjum okkur hvar skórinn kreppir að sjálfsögðum og eðlilegum mannréttindum kvenna um allan heim. Til að vekja athygli á misræminu milli hugsjónarinnar um fullkomið jafnrétti og veruleika kvenna þá ætla Soroptimistar um víða veröld að vera í sitthvorum skónum þennan dag og við hvetjum öll til að gera slíkt hið sama. Við vekjum athygli á að:

  • Þrátt fyrir að á Íslandi hafi frá árinu 2009 mælst minnsta kynjabil í heimi samkvæmt skýrslu Alþjóða efnahagsráðsins, World Economic Forum, þá er enn verk að vinna,
  • ekki hefur tekist að uppræta kynbundið ofbeldi, en það er talið bæði orsök og afleiðing kynjamisréttis,
  • launamisrétti milli kynja er enn staðreynd þrátt fyrir að í lögum sé kveðið á um að greiða skuli jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf.

Sameinuðu þjóðirnar eru með okkur í liði

Við ætlum 8. mars að ganga í okkar ósamstæðu skóm í átt til jafnréttis til að minna okkur á að sá hópur sem býr við kynjamisrétti er fjölbreyttur og staða hvers og eins mismunandi, s.s. eftir kyni, kynhneigð, aldri, menntun, þjóðerni og fjárhagslegu og félagslegu öryggi. Við ætlum líka að fagna þeim áföngum sem barátta kvenna fyrir jafnrétti og bættri stöðu kvenna hefur skilað á þeim 113 árum sem liðin eru síðan 8. mars var formlega helgaður baráttunni fyrir jafnrétti. Á fyrstu árum 20. aldarinnar voru konur víðsvegar um heim komnar í mikinn baráttuham fyrir kosningarétti, rétti kvenna til menntunar og embætta og síðast en ekki síst fyrir siðlegum launum fyrir verkakonur sem bjuggu bæði við vinnuþrælkun og að vera víðast ekki metnar nema hálfdrættingar í launum miðað við karla, iðulega fyrir nákvæmlega sömu vinnu. Verkakvennafélög litu dagsins ljós, enda voru þær margar baráttukonurnar sem töldu karla í nýstofnuðum verkalýðsfélögum ekki bera hag þeirra nægilega fyrir brjósti. Það var svo 1910 í Danmörku sem kvenréttindakonur fylktu liði með verkakonum og samþykktu að gera 8. mars að alþjóðlegum baráttudegi verkakvenna. Þátttaka framan af var mest bundin við fyrst verkakvennafélögin og síðar gervalla verkalýðshreyfinguna. Í áranna rás hefur skírskotunin breikkað og á sjöunda áratugnum tóku „rauðsokkahreyfingar“ alls staðar á Vesturlöndum daginn til sín og fylktu liði þennan dag með verkalýðsfélögum og kvenréttindafélögum. Það var svo 1977 sem Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að standa á þessum degi að baki aðgerða kvenna í átt til aukins jafnréttis á öllum sviðum og víða er þessi dagur orðinn sérstakur frídagur til stuðnings baráttu kvenna.

Jafmrétti kynja er forsenda fyrir velmegandi heimi

Þegar við lítum til allra heimshorna þá er staða kvenna víða sárlega erfið og viðkvæm. Jafnréttið virðist víða vera aðeins fjarlægur draumur, í óravíddum frá miskunnarlausri kúgun. Við fréttum af skipulögðum nauðgunum í stríðinu í Úkraínu. Limlesting á kynfærum kvenna er enn útbreiddur siður í heilu heimsálfunum. Barnungar stúlkur eru enn seldar í hjónabönd, en ein af afleiðingunum er há dánartíðni þeirra vegna ótímabærra þungana. Ráðist er að öllum, já öllum mannréttindum kvenna í Afghanistan þar sem menntunarleiðir hafa verið að lokast þeim og í Íran hefur barátta ungra stúlkna þar sem svokallaðar siðgæðislögreglur ríkja yfir þeim með ægivaldi náð heimsathygli. Vestanhafs og víðar er verið að brjóta á bak aftur grundvallarréttindi kvenna til að ráða yfir líkama sínum og hvort og hvenær þær eignast börn. En hugsjónin um jafnrétti er magnaður drifkraftur baráttu og breytinga, uppspretta vonar og samstöðu kvenna í millum þvert á landamæri, þjóðerni og félagslega stöðu. Við berjumst margefldar gegn kynbundnu ofbeldi um allan heim. Öll okkar baráttumál eru innbyrðis tengd, tengd undirskipun kvenna í hið „óæðra kyn“. Og enn er baráttan fyrir hækkun lægstu launa að miklu leyti barátta fyrir mannsæmandi kjörum kvenna og fyrir því að þær geti séð fyrir sér og börnum sínum. Já, það er verk að vinna!

Soroptimistar um allan heim taka 8. mars höndum saman við önnur kvennasamtök, verkalýðsfélög og öll þau sem vilja vinna bug á kynjamisréttinu og taka undir með Sameinuðu þjóðunum sem í tilefni dagsins lýsa því yfir að jafnrétti kynja sé ekki aðeins grunnmannréttindi, heldur nauðsynlegur grundvöllur fyrir friðsælli, sjálfbærari og velmegandi heimi. 

F.h. Soroptimistaklúbbs Suðurlands
Hildur Jónsdóttir
verkefnisstjóri Sigurhæða

Nýjar fréttir