11.7 C
Selfoss

Biðin senn á enda

Vinsælast

Ellý Tómasdóttir.

Um langa hríð hefur Suðurland beðið eftir nýrri brú yfir Ölfusá og er sú bið nú senn á enda. Umferð yfir núverandi Ölfusárbrú er mikil og ljóst er að á háanna tímum er erfitt að komast sinna leiða án tafa sér í lagi yfir sumartímann. Álagið á brúna er mikið og mikil þungaumferð fer um brúna og það hringtorg sem stendur við enda hennar á Selfossi. Þetta getur skapað hættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Umræður um að þetta muni hafa í för með sér minni verslun á Selfossi er ekki áhyggjuefni þar sem nýr miðbær hefur sýnt sig sem aðdráttarafl og er Selfoss orðinn áfangastaður bæði hjá Íslendingum og erlendum ferðamönnum. Fólk kemur og dvelur á Selfossi sem er virkilega jákvæð þróun sem gefur okkur byr undir báða vængi þegar kemur að öflugri verslun og þjónustu í Árborg.

Ölfusárbrú í útboð

Á föstudaginn síðastliðinn bárust fréttir af því að opnað hefði verið fyrir útboð á nýrri Ölfusárbrú. Um er að ræða samkeppnisútboð á grundvelli laga um opinber innkaup. Um er að ræða samvinnuverkefni. Við erum að tala um byggingu nýs 3,7 kílómetra kafla á Hringveginum ásamt 330 metra langrar stagbrúar á Ölfusá og undirgöng sem þjóna öllum vegfarendum. Þá standa áætlanir fyrir um að ný brú verði tekin í notkun árið 2026 og framkvæmdir komnar á fullt í byrjun árs 2024. Gert er ráð fyrir að um 5000 bifreiðar muni fara yfir nýja brú á degi hverjum. Ný brú mun verða til þess að þyngri ökutækjum verður beint um nýja brú og því losna Selfyssingar við þann gríðarlega fjölda flutningabíla sem leggja leið sína í gegnum þveran og endilangan bæinn allan sólarhringinn. Þetta eykur umferðaröryggi innanbæjar og verður til þess að mengun innan bæjar verður vonandi minni og loftgæði betri.

Mikil eftirvænting hefur verið eftir nýrri brú og ég er sannfærð um að þetta muni vera mikil bót fyrir Árborg jafnt sem Suðurlandið allt.

Höfundur er Ellý Tómasdóttir,
bæjarfulltrúi Framsóknar í Árborg

Nýjar fréttir