7.8 C
Selfoss

Að standa vörð um íslenskan landbúnað

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.

Nýverið fór fram Búgreinaþing og fram undan er Búnaðarþing og því er vert að ræða komandi endurskoðun búvörusamninga. Nauðsynlegt er að samningar séu bændum og matvælaframleiðslu landsins til hagsbóta, og því vil ég brýna hæstvirtan matvælaráðherra í þeim efnum. Hlusta þarf á þarfir og kröfur bænda. Það skiptir ekki bara þá máli heldur einnig samfélagið allt. Við viljum búa við fæðuöryggi þar sem framleiðsluhvatar eru miklir og við líðum aldrei skort á innlendum matvælum.

Augljós þörf fyrir meiri stuðning og aukna tollvernd

Við sjáum augljósa þörf fyrir stuðning frá ríkinu bæði í formi fjárframlaga og tollverndar. Öll umræða um að breyta kerfinu og taka út greiðslur sem eru beintengdar framleiðslu er aðeins til þess fallin að veikja stoðir landbúnaðarins og þá sérstaklega þegar kemur að nautgriparækt og sauðfjárrækt. Óframleiðslutengdur stuðningur eða grænar greiðslur tryggja ekki næga framleiðslu með skilvirkum hætti.

Með minni stuðningi komum við í veg fyrir nauðsynlega endurnýjun í greininni. Öflugur stuðningur og skilvirkt kerfi tryggir grundvöll til upphafs og áframhalds matvælaframleiðslu. Við sjáum að fjárfestingin búskap er töluverð. Vextir eru kringum 10% af jarðalánum, sem er virkilega mikið umhugsunarefni. Hvernig ætlumst við til þess að tryggja endurnýjun undir þessum forsendum?

Tryggja þarf öfluga tollvernd og endurskoðun verðlagsgrunnsins, sem er bæði hagsmunamál bænda og neytenda. Öll umræða um að það hækki verð til neytenda er á villigötum og markmiðið á að vera að tryggja framleiðslu afurða.

Stígum stöndug skref

Þá eflum við ekki landbúnað með því að draga úr stuðningi við eina grein í þágu annarrar. Íslendingar stæra sig af því að við búum við gæði og heilnæmi í matvælunum okkar. Það jú byggir á íslenskum landbúnaði. Hættan er að sú gæði hverfa ef landbúnaðurinn fær ekki þá virðingu og þann stuðning sem hann á  skilið. Gerum þetta almennilega í eitt skipti fyrir öll!

Höfundur er þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi

Nýjar fréttir