-7 C
Selfoss

Bros gerir strumpaverk

Magnús Sigurjón Guðmundsson, áhugamaður um barnabókmenntir.

Lengst inn í skóginum bjuggu litlar, bláar verur sem kölluðu sig Strumpa. Þeir voru góðir. Þar bjó líka Kjartan, hann var vondur Galdrakall. Hann hagaði sér oft það undarlega að menn voru ekki vissir um hvað amaði að honum, eða hvort hann væri einfaldlega að gæða sér á kardimommudropum frá Kardóbæ. Kjartan var einu sinni í bláa liðinu en einhverra hluta vegna þá yfirgaf hann það og segja sumir að það hafi hann gert til þess að fá meiri völd.

Ég þekki ekki alla söguna enda flutti ég bara í ævintýraveröld strumpanna fyrir rúmlega sex árum síðan. Kjartani er margt til lista lagt og hann er drífandi og duglegur. Hann hefur komið að uppbyggingunni í skóginum og hannað byggingar á svæðinu. Í aðdraganda síðustu lýðræðislegu kosninganna í skóginum þá fór Kjartan mikinn í ræðu og riti. Hans óvandaða hegðun var áberandi og fældi marga frá því að kjósa galdrakallinn og hans flokk. Flokkur hans næstum því þurrkaðist út. Aðeins 247 íbúar skógarins kusu flokkinn og enginn annar flokkur fékk lakari kosningu. Síðan þá hefur Kjartan haldið áfram með sína óhefðbundnu framkomu og hrópað „Ó ég hata strumpa“ eins oft og hann getur. En þar talar hann fyrir tómum eyrum. Rökþrot Kjartans eru það mikil að hann er farinn að setja fram ljóðrænar sögur um Kardóbæ sem enginn skilur. Þar uppnefnir hann undir rós leikendur sem gegna stöðu ráðamanna í skóginum og stórhuga smíðastrumpa sem eru að gera skóginn fjölbreyttari og fallegri. Mikið vildi ég að Kjartan og strumparnir gætu verið vinir.

Æðsti strumpur er leiðtogi strumpanna. Hann er í björgunarhlutverki þegar eitthvað fer úrskeiðis og fyrir okkur íbúa skógarins þá er ljóst að þar fer maður sem trúir á ráðdeild í rekstri. Smíðastrumpur er smiður þorpsins og er alltaf í vinnugalla. Hann var áberandi í stjórnmálunum en dró sig í hlé eftir frábær störf í þágu skógarins. Gáfnastrumpur er ungur bókaormur sem er hægri hönd Æðsta strumps og hann er efnilegasti strumpurinn í þorpinu. Strympa er úrræðagóð og rökföst og fékk æðsti strumpur hana til að leiða starfið í skóginum fyrri hluta kjörtímabilsins. Hún er reynslumikil rekstrarkona og sómar sér vel í æðsta hlutverki skógarins. Afa strumpur er afi strumpana og jafnframt sá elsti. Hann fæddist í skóginum og er sögumaður þorpsins. Þessi vaska strumpasveit gerir skóginn stoltan.

Ef þið hlustið vel, þá heyrast kannski reiðiöskrin í Kjartani. Hann er ekki eins og letistrumpur sem eyðir mestum tíma sínum í að sofa, heldur ver hann tímanum í fjarstæðukennd skrif. „Ég skal ná ykkur – hvað sem það kostar. Þið skuluð fá það óþvegið“. Ef þið eruð aftur á móti góð þá sjáiði öll strumpunum bregða fyrir. Þeim kann ég bestu þakkir fyrir að byggja upp skóginn okkar allra. Íbúar í Kardóbæ og Skóginum athugið – bros gerir strumpaverk!

Höfundur er áhugamaður um barnabókmenntir

Nýjar fréttir