11.7 C
Selfoss

Þjónusta framar eigin hag

Vinsælast

Blaðamaður Dagskrárinnar settist niður með tveimur félagsmönnum Rótarýklúbbs Selfoss, þeim Birni Bjarndal Jónssyni og Garðari Eiríkssyni. Tilefnið var alþjóðlegi Rótarý dagurinn sem er í dag, 23. febrúar. Blaðamanni lék forvitni á að vita hvað þetta félag tæki sér fyrir hendur á heimsvísu, landsvísu en einnig í nærsamfélaginu.

Aðspurður hvað Rótarýhreyfingin sé segir Björn: „Fyrsti Rótarýklúbburinn í heiminum var stofnaður í Chicago af ungum Bandaríjkamanni árið 1905, Paul Harris að nafni. Harris sá fyrir sér klúbb fagmenntaðs fólks með mismunandi bakgrunn frá hinum ýmsu starfsstéttum sem ættu sér sameiginlegan vettvang. Það gekk eftir og klúbbar voru stofnaðir um öll Bandaríkin og síðar um allan heim á fyrrgreindum forsendum.“

Efla frelsi og réttlæti í viðhorfum til mannlegs lífs

Og Garðar heldur áfram: „Í dag telur Rótarýhreyfingin um 35.000 Rótarýklúbba á heimsvísu. Hreyfingin sameinast um það markmið að þjóna öðrum án tillits til trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynþáttar eða þjóðernis. Rótarý leitast við að ná þessu markmiði með því að stuðla að skilningi og friði meðal manna og þjóða, efla frelsi og réttlæti í viðhorfum til mannlegs lífs. Í gegnum árin hafa Rótarýfélagar lagt mikið af mörkum, þar má nefna þekkingu og vinnu, auk fjárhagslegs stuðnings til að vinna að friði í heiminum. Félagsmenn berjast gegn sjúkdómum, útvega hreint vatn og hreinlætisaðstöðu þar sem þess er þörf. Styðja við menntun í fátækari ríkjum og nú, frá árinu 2020, hefur alþjóðahreyfing Rótarý einnig sett áherslu á umhverfismál.“

Hafa stutt samfélagið í Úkraínu um tæplega 73 milljónir króna

Þá segir Björn að Rótarý-samtökin séu ein stærstu mannúðar- og friðarsamtök í heimi með um 1,4 milljón félaga. „Rótarý ver yfir 300 milljónum bandaríkjadala, sem samsvara rúmum 43,5 milljörðum íslenskra króna, á ári hverju til fjölmargra verkefna um allan heim í gegnum Rótarýsjóðinn. Íslenska Rótarýumdæmið tók á dögunum þátt með 19 öðrum umdæmum vítt um heim í stóru verkefni og samtals var 500.000 bandaríkjadölum, sem samsvarar tæplega 73 milljónum íslenskra króna, varið til stuðnings samfélaginu í Úkraníu, meðal annars með því að færa þeim rafstöðvar, vatnshreinsibúnað, vetrarföt, svefnpoka og sjúkrabúnað svo fátt eitt sé nefnt. Þá taka Rótarýklúbbar á Íslandi að sér ýmis verkefni s.s. gróðursetningu og styðja við fjölmörg samfélagsverkefni s.s. aðstoð við að fjármagna reiðskóla fyrir fötluð börn og að setja upp söguskilti á söguslóðum til upplýsinga fyrir ferðamenn. Er þá bara stiklað á stóru en metnaður Rótarýfélaga liggur í því að láta gott af sér leiða.“

Góður félagsskapur sem vill láta gott af sér leiða

Garðar segir að fólk á öllum aldri séu meðlimir í Rótarýklúbbum hér á landi, bæði karlar og konur. „Konum fer ört fjölgandi sem er gott. Flestir sem ganga í Rótaryklúbba eru eldri en 35 ára en það eru engin efri aldursmörk fyrir þátttöku í starfinu. Hver og einn sem gengur í Rótarý stendur fyrir sinni starfsgrein innan síns klúbbs og fræðir aðra félaga um sitt starf og fræðist um starfsgreinar annarra félaga sömuleiðis. En annars má segja að flestir sem ganga í Rótarý séu að sækja í góðan félagsskap sem vill láta gott af sér leiða. Á fundum klúbbanna er boðið upp á alls konar fræðslu sem er mjög vinsælt. Oftast eru gestir úr samfélaginu fengnir til að halda erindi, sem oftar en ekki eru mál sem eru ofarlega á baugi þá stundina. Við viljum líka benda á að innan Rótarý starfa sérstakir klúbbar fyrir ungt fólk sem kallast Rótarakt-klúbbar. Þessir klúbbar eru fyrir ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára.“

Að lokum vilja þeir Björn og Garðar bæta því við að Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, sé Rótarýfélagi. „Hún hefur sagt að þátttaka í Rótarýklúbbi sé eins og að vera í Háskóla lífsins vegna allra þeirra fjölbreyttu erinda sem flutt eru á fundum um málefni líðandi stundar. Allir eru velkomnir á fund og má endilega hafa samband við forseta Rótarýklúbbs Selfoss ef áhugi er fyrir hendi í gegnum netfangið petra@tannalfur.is . Á vefsvæðunum rotary.is og rotary.org má finna mikið af fróðleik um Rótarýhreyfinguna ef þú hefur áhuga á að kynna þér hana nánar.“

Nýjar fréttir