10 C
Selfoss

Borgari og bjór á Röstí

Vinsælast

Selfyssingarnir Árni Evert Leósson og Andri Jónsson hófu rekstur tveggja staða þegar mathöllin opnaði og hafa nú opnað þann þriðja, Röstí, þar sem Smiðjan var áður.

Smashborgari af fínustu sort. Mynd: DFS.is/HGL.

Dagskráin náði tali af Árna í tilefni opnunar Röstí. „Mjólkurbúið mathöll opnaði þegar miðbærinn sjálfur tók til starfa sumarið 2021. Þessi tími er búinn að vera ævintýri líkastur fyrir okkur Andra og fjölskyldur okkar. Mathöllinn í heild fékk fljúgandi start og mér finnst hún hafa breytt miklu fyrir Selfoss. Aðsóknin hefur verið mikil, jöfn og góð en bæði heimamenn, innlendir og erlendir gestir hafa nú einhvern góðan miðpunkt til að hittast, sýna sig og sjá aðra.“

„Við fórum af stað með staðina okkar tvo, Takkó og Pasta, og vissum lítið hvað væri framundan þó vissulega væru jákvæðir straumar í kringum okkar. En viðtökurnar hafa verið frábærar og þegar tækifæri gafst til þess að stækka við okkur, þá slógum við til. Við höfum fundið mikinn meðbyr og tókum boði um að vera með Takkó stað í nýju mathöllinni í Kringlunni, Kúmen. Það er mikilvægt fyrir bæði veitingastaði og mathallir að þróast og breytast og út frá reynslu okkar þá fannst okkur við hafa heilmikið fram að færa. Við teljum að minnsta kosti að góður kjúklingastaður og góður hamborgarastaður eigi mikla möguleika og passi vel inn í flóruna hér,“ segir Árni.

Baldur Már sýnir blaðamanni hvernig smashborgarar eru matreiddir. Mynd: DFS.is/HGL.

„Við ákváðum að fara í einfaldari týpu af hamborgurum, ásamt því að vera undir áhrifum hinna vinsælu smash borgara. Við ætlum halda matseðlinum frekar litlum og nýta þá jafnframt tækifærið til þess að bjóða stundum upp á „pop-up“ borgara, sem geta þá fengið tækifæri til að komast á matseðilinn ef þeir ná vinsældum. Við ákváðum að opna hamborgarastaðinn fyrst, færa hann yfir á barinn og reyna að láta þetta vinna svolítið saman; borgari og bjór,“ segir Árni.

Andri reiðir fram hamborgara á Röstí. Mynd: DFS.is/HGL.

„Nafnið Röstí kemur út frá diskunum okkar og útlitinu á staðnum. Við vildum fanga stemninguna á hamborgarabúllum úti í heimi, þær eru gjarnan merktar í bak og fyrir með coke merkjum og gömlum coke pappírsstöndum og tilheyrandi og smá svona “funky„ diskum sem eru vel nýttir. En á kjúklingastaðnum komum við til með að vera með einn kjúklingaborgara, kjúklingavængi og chicken fingers og gott úrval af sósum í boði til að sérsníða réttina að hverjum og einum. Við komum svo til með að þróa kjúklingastaðinn betur á næstu vikum ásamt grænmetis og vegan réttum sem væru þá þeim megin sem „frontur“ Smiðjunnar var áður Það er allt í vinnslu og stefnum við á að opna á næstu vikum. Svo fengum við Baldur Má, kokk sem lærði og vann lengi vel í Tryggvaskála og síðar á Matarlyst til liðs við okkur sem yfirkokkur á Röstí,“ segir Árni að lokum.

Baldur Már, yfirkokkur á Röstí. Mynd: DFS.is/HGL.

 

Nýjar fréttir