11.7 C
Selfoss

Golfklúbbur Selfoss opnar fimm nýjar holur á næsta ári

Vinsælast

Golfklúbbur Selfoss sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu á Facebook- síðu sinni nú í kvöld:

Leiknar verða fjórtán holur á Svarfhólsvelli á næsta ári, nýr par-3-völlur í hæsta gæðaflokki opnaður 2025 og átján holur vígðar á aðalvellinum árið eftir. Þetta er meðal þess sem fram kemur í uppfærðri uppbyggingaráætlun Golfklúbbs Selfoss, sem staðið hefur fyrir mikilli uppbyggingu á svæði sínu síðan 2017, í samstarfi við Árborg.

Gert er ráð fyrir að vallarsvæðið verði allt fullmótað 2026, samhliða áformum um nýjan þjóðveg 1 norður fyrir þéttbýlið á Selfossi, með nýrri brú yfir Ölfusá, en brúarsporðurinn verður reistur á gömlu 3. flötinni, sem notuð var sem eins konar aukahola á síðasta ári. Uppbygging á svæðinu hófst með aðlögun vallarins að áformuðum, nýjum þjóðvegi, en til þess þurfti að gera þrjár nýjar golfbrautir og færa æfingasvæðið. Þeirri vinnu lauk í fyrra, með opnun nýs æfingasvæðis á gömlu 1. brautinni, en það ár var jafnframt fyrsta heila vertíðin þar sem nýju brautirnar þrjár voru leiknar. Í dag eru þær fyrstu þrjár holurnar í leikröðinni.

Unnið hefur verið að stækkun aðalvallarins úr níu holum í átján síðan 2021. Stefnt er að því að fara langt með sáningu á þeim á komandi sumri, taka þær í notkun á næsta ári og leika þannig fjórtán holur. Með nýju forgjafarkerfi, sem tók gildi 2020, má nú leika hvaða holufjölda sem er á milli níu og átján. Svo skemmtilega vill til að það var tilkynnt af bandaríska golfsambandinu USGA á nýsköpunarráðstefnu þess í Tókýó 2019, í viðurvist og í samtarfi við íslenska golfvallahönnuðinn Edwin Roald, sem hannaði nýju brautirnar að Svarfhóli og hefur lengi talað fyrir auknum sveigjanleika forgjafarkerfisins gagnvart öðrum holufjölda en aðeins níu og átján.

Það verður mikill fengur fyrir GOS að fá nýju holurnar inn, því að með þeim verður hægt að leika fjórtán holur, en það eykur afkastagetu vallarins til muna. Með þessari viðbót verður því hægt að taka við mun fleiri kylfingum en áður. Ekki er vanþörf á, því að félögum í GOS hefur fjölgað um 400 á 10 árum og eru nú 612 félagar.

Skammt er stórra högga á milli. Árið 2020 tók GOS í notkun nýja, glæsilega inniæfingaaðstöðu og áhaldahús fremst á svæðinu, þar sem ekið er inn á það í dag. Þar í kring er nú unnið að mótun nýs, glæsilegs par-3-vallar í hæsta gæðaflokki. Sá mun hafa sjö holur, heita Gosi og verða tilbúinn 2025.

Árið eftir er síðan stefnt að því að opna átján holur á aðalvellinum, með verklokum við gerð síðustu fjögurra brautanna norðaustan við núverandi völl. Með þessu verður liðinn áratugur frá því að þessi markvissa uppbygging hófst.

 

Nýjar fréttir