7.3 C
Selfoss

Lionsklúbbur Laugardals 50 ára

Vinsælast

Lionsklúbbur Laugardals hélt upp á 50 ára afmæli sitt á árinu með 100 manna hamborgaraveislu í Eyvindartungu í Laugardal, en þar hefur útihúsum verið breytt í glæsilegan veitingasal. Þetta er jafnframt núverandi fundarstaður klúbbsins. Klúbburinn var stofnaður 13. maí 1972 af ríflega 20 Laugdælingum. Á þessum 50 árum hefur gengið á ýmsu. Fjöldi félagsmanna hefur sveiflast mjög í gegnum tíðina, farið niður fyrir tíu, en hefur nú náð nýjum hæðum og eru félagar núna 45. Enn býr kjarninn í klúbbnum í Laugardal, en um helmingur félaga býr þó utan sveitarfélagsins, aðallega á höfuðborgarsvæðinu, enda stutt að fara austur fyrir fjall á fundi og mannfagnaði.

Starf Lionsklúbba er margvíslegt og fer það ekki allt hátt. Undanfarið hefur klúbburinn styrkt fjölda aðila sem hafa þurft á því að halda, m.a. Heilbrigðisstofnun Suðurlands og núna síðast tekið þátt í átaksverkefni um kaupa á rafstöðvum sem senda á í skóla og leikskóla í Úkraínu. Þetta er sameiginlegt verkefni finnskra, íslenskra, sænskra, eistneskra, pólskra, þýskra og úkraínskra Lionsklúbba.

Í byrjun aðventu hefur sá skemmtilegi siður verið á Laugarvatni að haldin er Ljósahátíð. Að þessu sinni stóðu Kvenfélagið, Lionsklúbburinn, Planet Laugarvatn, Fontana og Eyvindartunga að henni. Lionsklúbburinn var með blóðsykurmælingu ásamt því að selja flotkerti. Að því loknu var tendrað á jólatrénu í Bjarnalundi, en það hafa lionsmenn gert í yfir 40 ár. Eftir hátíðina í Bjarnalundi gekk hersingin niður að vatninu þar sem flotkertunum var fleytt við hátíðlega stund. Árinu líkur hjá Lkl. Laugardals á árlegri skötuveislu.

Í meira en áratug hefur Lkl. Laugardals boðið upp á skötu á Þorláksmessu í matsal Menntaskólans að Laugarvatni. Þar hafa sveitungar og gestir getað notið þessa þjóðlega siðar undir öruggri stjórn Sigurðar Rafns Hilmarssonar. Þeir sem vilja tryggja sér sæti í skötuveisluna geta sent línu á lionslaugardal@gmail.com eða hringt í Eirík 896 8779 eða Arnar 866 0137. Nánir upplýsingar má finna á Fésbókarsíðu klúbbsins

F.h. Lkl. Laugardals
Níels Bjarki Finsen

Nýjar fréttir