5.6 C
Selfoss

Mun ný Hamarshöll setja Hveragerði í gjaldþrot?

Vinsælast

Fyrir bæjarstjórnarfund í Hveragerði síðastliðinn fimmtudag fengum við bæjarfulltrúar D-listans loks kynningu á áformum um nýja Hamarshöll, en fyrst var boðað til þessa „samráðsfundar“ í október en honum síðan tvívegis frestað. Flott áform um uppbyggingu voru kynnt sem sveitarfélagið á því miður ekki peninga til að byggja, nema þá að skuldsetja sveitarfélagið og íbúa þess til næstu ára/áratugi með líklega tilheyrandi skerðingu á lögbundinni þjónustu. Fyrstu áfangar sem rísa eiga á núverandi grunni eiga að kosta 1.1 milljarð +/- 20-30% vikmörk samkvæmt munnlegum heimildum sem við fengum frá fundinum og fullkláruð 7.700m2 höllin mun kosta 2.7 milljarða. Á bæjarstjórnarfundinum var samþykkt af meirihlutanum að fara í alútboð á nýrri Hamarshöll, þó að hvergi í minnisblaðinu sem lagt var fyrir á fundinum frá Mannvit og Alark komi fram hvað verkið á að kosta og ljóst er að  fjármögnun verksins liggur ekki fyrir.

Skýrslan sem var harðlega gagnrýnd

Eftir að hafa fengið þessa kynningu og upplýsingar um kostnað við þetta mannvirki varð mér hugsað til skýrslu sem Verkís gerði eftir fall Hamarshallarinnar í vor þar sem kom fram að stálgrindarhús á grunni Hamarshallarinnar myndi líklega kosta um 1.2 milljarð króna +/- 20-30% vikmörk. En loftborinhöll með nýju inngangshúsi um 300 milljónir króna. Síðan koma til tryggingabætur. Þessa skýrslu og vinnu Verkís gagnrýndu fulltrúar O-listans og Framsóknar mjög og sögðu þau að aðrir kostir hefðu ekki verið skoðaðir eins og verðhugmynd sem þau væru með frá aðila um að það kosti um 260 m.kr. að koma upp einangruðu stálgrindarhúsi á grunni Hamarshallarinnar og að húsið yrði tilbúið í lok nóvember og um væri að ræða hús sem þegar væri reynsla af hér á landi. Seinna sögðust þau einnig vera komin með tilboð í 650 milljóna króna stálgrindarhús.

Semsagt, Mannvit komst að nánast sömu niðurstöðu og Verkís.

Eftir standa spurningarnar

Ætla fulltrúar O-listans og Framsóknar að biðjast afsökunar á því hvernig þau töluðu niður skýrslu Verkís? Hvar eru þessar verðhugmyndir og tilboð nú að 260-650 milljóna króna höll sem O-listinn og Framsókn gat reist fyrir kosningar? Hvers vegna erum við ekki að sjá þessi verð í skýrslu Mannvits? Afhverju getur meirihlutinn ekki að reist þessa höll eftir kosningar fyrir þessar miklu lægri upphæðir? Hvernig á að fjármagna þessa 7.700m2 draumahöll? Mörgum af þessum spurningum fáum við ekki svör við þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um, enda fer lítið fyrir gagnsæi hjá nýjum meirihluta.

Loftborin höll skynsamlegasta leiðin?

Við á D-listanum efuðumst alltaf um þessar upphæðir að húsum sem O-listinn og Framsókn lögðu fram og ljóst er að við höfðum rétt fyrir okkur. Við höfum alltaf talað um að hagkvæmast og skynsamlegast væri að reisa aftur loftbornahöll með það í huga að Íþróttastarf Hamars kæmist aftur í samt horf sem fyrst, því miður hafa fulltrúar meirihlutans bitið það í sig að vilja ekki fara þá leið að reisa aftur loftbornahöll sem hefur gjörbylt íþróttastarfi í Hveragerði. En höllin væri komin upp og í notkun hefði verið haldið áfram með loftbornahöll.

Friðrik Sigurbjörnsson,
oddviti D-listans í Hveragerði

Nýjar fréttir