11.1 C
Selfoss

„Nú langar mig að vera memm“

Vinsælast

Vala Hauksdóttir, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Suðurlands, hlaut Ljóðstaf Jóns úr vör árið 2024 fyrir ljóð sitt Verk að finna, sem má lesa hér að neðan. Stafurinn, ásamt verðlaunafé, var afhentur Völu á fæðingardegi Jóns, þann 21. janúar sl.

Ljóðstafur Jóns úr vör er ljóðasamkeppni á vegum Lista- og menningarráðs Kópavogs og Ritlistarhóps Kópavogs sem stofnað var til árið 2001. Er Ljóðstafurinn veittur einu skáldi að lokinni samkeppni þar sem öllum er frjálst að senda inn frumsamin ljóð á íslensku, undir dulnefni, og með þeim hætti spila yngri og reyndari skáld jafnan leik.

Vala er 32 ára, en hún fæddist á Húsavík árið 1992. „Ég var krakki á Hvanneyri, unglingur á Selfossi og eftir nokkurra ára flakk er ég aftur sest að á Selfossi, nú með eiginmann, tvö börn, tvo ketti og hund. Ég er ferðamálafræðingur og vinn sem verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Suðurlands í 80% stöðu meðfram meistaranámi í Ritlist við Háskóla Íslands, segir Vala í samtali við blaðamann Dagskrárinnar.

„Grunaði aldrei að ljóðin mín ættu erindi inn í bókmenntaheiminn

Vala segist alltaf hafa haft gaman af orðum. „Þegar ég var barn var mér stundum strítt fyrir að tala fullorðinslega og reyndar er ennþá stundum gert góðlátlegt grín að málfarinu mínu. Ég er eiginlega jafn góð í riti eins og ég er léleg í ræðu. En ég held ég hafi tekið mínum eigin skáldskap sem dálítið sjálfsögðum hlut. Það er að segja, ég hef alltaf átt auðvelt með að skrifa en mig grunaði aldrei að ljóðin mín ættu erindi inn í bókmenntaheiminn.

Myndmálið segir meira en orðin ber

Aðspurð um sína túlkun á Verk að finna segir Vala: Ég hef ekkert gaman af ljóðum sem eru of dulræn og leggja fyrir okkur gátur sem aðeins bókmenntafræðingar geta leyst. Hins vegar tel ég að það sé merki um gott ljóð þegar það hreyfir við ólíku fólki á ólíkan hátt. Þannig getur myndmálið sagt miklu meira en orðin ber. Myndmálið í þessu ljóði eru fyrst og fremst upplifanir af smávægilegum sársauka sem býr samt yfir einhverri fegurð. Að meiða sig við útsaum, við garðyrkju, berfætt í fjörunni eða við að detta af hestbaki í mjúkt lyng, eru fallegar tilfinningar.

Vikurnar þéttbókaðar af misgáfulegum loforðum

Sælan er skortur á öllu nema tíma til verkja,“ er áhugaverð setning úr ljóðinu sem blaðamanni lék forvitni á að vita hvaða skilaboðum eða tilfinningu Vala vildi miðla til lesenda. „Það er fyndið hvað það er hægt að skrifa mikið útfrá einni ljóðlínu en þetta er í raun kjarni ljóðsins. Hversu oft á dag meiðum við okkur dálítið líkamlega eða andlega? Hversu oft megum við vera að því að stoppa um leið og þessi verkur mætir okkur? Ég er reyndar klaufskari en fólk er flest og í lok dags er ég með marbletti og skrámur sem ég man ekkert eftir að hafa fengið yfir daginn. Og stundum þegar ég leggst á koddann er mér eitthvað illt í sálinni en ég hef verið svo upptekin að ég veit ekki hvað veldur þessum ónotum. Ef við værum ekki alltaf á þönum, með vikurnar okkar þéttbókaðar af misgáfulegum loforðum og heimilin uppfull af drasli sem við höfum ekki tíma til að njóta, þá held ég að við værum sælli. Þá gætum við mætt þessum litlu daglegu skrámum, leyft verkjunum að koma og fara og haldið áfram að vera sæl. Hamingjan kemur svo með endurtekningunni og hlutgerist í sigginu.

Elísabet Sveinsdóttir, formaður lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogsbæjar og Vala Hauksdóttir, handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör ásamt Elísabetu Dröfn Kristjánsdóttur sem hlaut önnur verðlaun fyrir ljóðið Skyggnishnignun og Rakel Leifsdóttir sem tók á móti verðlaunum fyrir systur sína, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur, sem hlaut þriðju verðlaun fyrir ljóðið Deig.

Ný hætt að flissa

Aðspurð um hvaða þýðingu verðlaunin hafi haft fyrir hana segir Vala Ljóðstafinn hafa gefið sér kjark, trú á sjálfa sig og spark í rassinn. „Ég tók við þessum heiðri í janúar og það hefur tekið mig fram á vor að hætta að flissa eins og unglingur í hvert sinn sem ég heyri orðið skáld notað um mig. Ég var eflaust alltaf skáld, það bara vissi það enginn, síst af öllum ég.

Ég er farin að lesa ljóð á aðeins annan hátt en ég gerði áður en ég hlaut Ljóðstafinn. Ég pæli minna í myndmáli ljóðanna og skoða frekar ákvarðanir sem ljóðskáldin hafa tekið um línuskipti, greinarmerki og þess háttar. Ég svoleiðis spæni í gegn um ljóðabækur þessa dagana með gleraugum vísindamannsins,“ segir Vala.

Hugsar varla um annað en ljóð

Áður en ég vann Ljóðstaf Jóns úr Vör óraði mig ekki fyrir því hvað það er gaman að vera ljóðskáld. Þetta var bara eitthvað sem lá vel fyrir mér en ég stefndi ekki beinlínis á. Þegar ég hóf nám í Ritlist sá ég fyrir mér smásagnaskrif, barnabækur og skáldsögur en núna hugsa ég varla um annað en ljóð! Það er líflegur félagsskapur í kring um ljóðaheiminn sem ég vissi hreinlega ekki af og nú langar mig að vera memm. Ég er búin að lofa sjálfri mér að gefa út ljóðabók áður en ég hverf aftur inn fyrir notalega veggi skúffunnar,“ bætir Vala við.

Þegar Vala er spurð hvert stefnan sé tekin segist hún svo lánsöm að fá að stunda nám í ritlist meðfram vinnu. „Og ég ætla að njóta þess að læra af þeim bestu næstu misseri. Þetta nám hefur þegar gefið mér mikið, bæði víkkað hugarheiminn og tenglsanetið, kynnt fyrir mér möguleika ritlistarinnar og ekki síst veitt mér agaðri vinnubrögð. Ég elska að læra og ég elska líka starfið mitt hjá Markaðsstofu Suðurlands og þess vegna er stefnan ekki tekin lengra í bili. Ég er mjög sæl þó ég mætti stundum hægja á og gefa mér tíma til verkja,“ segir Vala kímin að lokum.

Verk að finna

Hrífuskaftsflís
í hengibrúnni milli bendifingurs og þumals.

Útsaumsnál
undir baugfingursnögl.

Skeljasandur
í hælsæri.

Hrossafælir
sem skýst með þyt undan þúfu

fall

að missa andann –
sortna fyrir augum
í lyngi.

Sælan er skortur
á öllu nema tíma
til verkja.

Hamingjan
er sigg.

Vala Hauksdóttir

Nýjar fréttir