11.7 C
Selfoss

Næsti laugardagur í Strandakirkju

Vinsælast

Á næstu tónleikum hátíðarinnar sunnudaginn 17. júlí nk. kl 14 kemur fram sópransöngkonan Margrét Hrafnsdóttir
ásamt Stefáni Ómari Jakobssyni sem leikur á básúnu og Mikael Mána Ásmundssyni sem leikur á gítar og harmónikku.Á efnisskránni eru íslensk þjóðlög og sálmar, lög eftir m.a. Ingibjörgu Azima og Jón Múla Árnason ásamt verkum eftir Kurt Weill og Ray Henderson.

Aðgangseyrir er kr. 3.500.
Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Tónlistarsjóði.

Um flytjendur:

Margrét Hrafnsdóttir, sópransöngkona lauk árið 1998 8. stigi hjá Sieglinde Kahmann frá Tónlistarskóla Reykjavíkur, en einnig 8. stigi á píanó hjá Selmu Guðmundsdóttur. Margrét lauk söngkennara- og einsöngvaradiplómi frá tónlistarháskólanum í Stuttgart undir handleiðslu Michiko Takanashi, Robert Hiller og Franzisco Araiza. Einnig lauk hún prófi frá ljóðadeild tónlistarháskólans hjá Cornelis Witthoefft.  Margrét hlaut styrk hjá Wagnerfélaginu í Stuttgart til að fara til Bayereuth og í framhaldi af því hélt hún einnig tónleika hjá Wagnerfélaginu. Hún hefur sótt fjölda námskeiða þar á meðal hjá Anne Sofie von Otter á uppvaxtarheimili Birgit Nilsson í Svíþjóð.

Margrét fór með hlutverk Freyju í Þrymskviðu eftir Jón Ágeirsson sem flutt var í Norðurljósum undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar á haustdögum 2018. Hún átti að fara með hlutverk Ortlinde í uppfærslu Íslensku óperunnar og Sinfoníuhljómsveit Íslands á „Die Walküre“ eftir Richard Wagner á Listahátíð í febrúar 2022, sem því miður var aflýst.

Hún hefur haldið einsöngstónleika í Þýskalandi, Íslandi, Sviss, Danmörku og Svíþjóð. Hún hefur hlotið styrki úr tónlistarsjóði, 2020 hlaut hún þriggja mánaða listamannalaun og sex mánuði fyrir 2021. Margrét starfar sjálfstætt sem söngkona og söngkennari.

Árið 2007 gaf hún út ásamt Ólöfu Sigursveinsdóttur, sellóleikara geisladiskinn „Hjartahljóð“, íslensk þjóðlög. Einnig fengu þær styrk frá Hlaðvarpanum til ad láta semja fyrir sig verk, „Heimtur“, sem frumflutt var í Berlín 2011 eftir Ingibjörgu Azima. Árið 2015 kom út diskurinn „Vorljóð á Ýli“ með þeim lögum.

Gítarleikarinn Mikael Máni Ásmundsson lauk námi við einn virtasta tónlistarskóla í Evrópu Conservatorium van Amsterdam í júní 2018. Þar útskrifaðist hann með hæstu einkunn af gítarleikurum í sínum árgangi. Mikael lærði undir handleiðslu jazzgítarleikarans Jesse van Ruller sem er með þekktari og virtari jazzgítarleikurum Evrópu. Hann stundaði nám við FÍH þaðan sem hann útskrifaðist árið 2014, aðeins 18 ára gamall, undir leiðsögn Hilmars Jenssonar og Sigurðar Flosasonar. Hann er nú í fullu starfi sem tónlistarmaður og þiggur listamannalaun sem flytjandi og tónskáld í 6 mánuði. Á árinu 2021 gaf hann út plötuna Nostalgia Machine í samvinnu við einn virtasta pródúsent jazz heimsins Matt Pierson sem hefur unnið að plötum með Pat Metheny, Brad Mehldau, Joshua Redman og fleirum. Hann hélt útgáfutónleika í ágúst í Kaldalóni með 10 manna hljómsveit. Platan hefur fengið frábærar viðtökur og hefur meðal annars verið spiluð á BBC 6 og fengið umfjöllun í virtasta jazztímariti Bretlands Jazzwise. Lög Mikaels hafa einnig verið spiluð m.a. í þáttum BBC Radio 3 „Late Junction“ og BBC Hereford & Worcester, Franska ríkisútvarpinu og tíu öðrum útvarpstöðvum í Bretlandi. Einnig hafa lögum hans verið streymt oftar en 1,000,000 sinnum á Spotify. Árið 2018 var frumraun Mikaels á sviði tónlistarútgáfu, platan „Beint heim“ með dúettnum „Marína & Mikael“, tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins í Jazz & blús. Í júní 2019 gaf hann út plötuna „Bobby“ með tríói sínu en sú plata hlaut lof gagnrýnenda og var Mikael tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2020 sem lagahöfundur ársins fyrir tónsmíðar sínar á þeirri plötu. Tríóið sem innihélt Skúla Sverrisson hélt útgáfutónleika í Kaldalóni í Hörpu í júní 2019 og komu þeir fram á Jazzhátíð Reykjavíkur í september 2019. Mikael gaf út tvær plötur á árinu 2020, plötunar Tendra og Sólstöður. Á íslensku tónlistarverðlaunum 2021 fékk hann tilnefningu í jazz/blús flokki sem tónhöfundar ársins í og fyrir lag ársins.

Stefán Ómar Jakobsson tónlistarmaður og básúnuleikari hefur starfað opinberlega við tónlist frá 1984. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan kennaranámi 1985 eftir það stundaði hann nám við Hochschule fur muzik und darstellende kunst í Graz í Austurríki og síðar við Berklee College of Music í Boston. Hann hefur leikið með Sinfóinlíuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í ýmsum verkefnum og leikið í mörgum söngleikja- og óperuuppfærslum. Hann stjórnaði Lúðrasveit Hafnarfjarðar frá 1988-2004 og hefur verið fastur básúnuleikari í Stórsveit Reykjavíkur sl. tuttugu ár.

Stefán stofnaði hljómsveit sína Stebbi Ó swingsextett 2014 sem á undanförnum árum hefur leikið víða á höfuborgarsvæðinu sérstaklega fyrir Lindy-hop dansara. Hann hefur einnig stofnað smærri samspil eins og Jazztríó Stebba Ó með þeim Aroni Erni Óskarssyni á gítar og Jóni Rafnssyni á bassa. Nýjasta samspilsútgáfan er jazzdúó kontrabassi og básúna með Jóni Rafnssyni. Stefán Ómar gaf út ljóðabókina Dimmrúnir árið 2015 og er með skáldsöguna Huldureiti í smíðum. Frá árinu 1988 hefur Stefán Ómar kennt við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og frá 2016 verið aðstoðarskólastjóri við sama skóla.

Nýjar fréttir