8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Meiri metnað í uppbyggingu húsnæðis í Hveragerði

Meiri metnað í uppbyggingu húsnæðis í Hveragerði

Meiri metnað í uppbyggingu húsnæðis í Hveragerði
Njörður Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar.

Á bæjarstjórnarfundi Hveragerðisbæjar 10. febrúar sl. var tekin fyrir húsnæðisáætlun bæjarins til ársins 2031. Á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir að „[h]lutverk húsnæðisáætlana er að draga fram mynd af því hver staða húsnæðismála er í hverju sveitarfélagi fyrir sig, greina framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf heimila, bæði til skemmri og lengri tíma. Megin markmið með gerð húsnæðisáætlana er því að stuðla að auknu húsnæðisöryggi heimilanna“. 

Ekki áætlun um fjölbreytta húsnæðiskosti

Í húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar 2022, sem lögð var fyrir fund bæjarstjórnar Hveragerðis, er að finna greiningu á stöðu í húsnæðismálum í sveitarfélaginu og hvert framboð húsnæðis þurfi að vera til að halda við núverandi stöðu. Því miður er ekki að finna í húsnæðisáætluninni metnaðarfull markmið um sókn í húsnæðismálum til að tryggja fjölbreytta húsnæðiskosti í bæjarfélaginu. 

Námsmannaíbúðir

Sem dæmi má nefna að í húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar er ekki að finna markmið um uppbyggingu námsmannaíbúða eða eins og segir í áætluninni: „Í sveitarfélaginu er ekki hefð fyrir húsnæði fyrir námsmenn og ekkert slíkt húsnæði til staðar. Af þeirra ástæðu er engin eftirspurn eftir leiguhúsnæði fyrir námsmenn í Hveragerði.“ Þetta er í raun ótrúlega metnaðarlaus framsetning. Í raun ætti sveitarfélagið að setja sér markmið um að námsmannaíbúðir verði í Hveragerði og líklega yrðu slíkar íbúðir eftirsóttar meðal námsmanna með fjölskyldur, og námsmanna sem eiga rætur í Hveragerði og vilja búa hér áfram þó nám sé sótt til höfuðborgarsvæðisins.

Leiguíbúðir 

Í húsnæðisáætlun er ekki heldur sett fram áætlun um hlutfallslega fjölgun leiguíbúða, heldur látið nægja að viðhalda því hlutfalli sem er í Hveragerði nú þegar. Áætlað hefur verið að um 7-11% heimila í Hveragerði séu í leiguhúsnæði. Á Norðurlöndunum er hlutfall íbúa í leiguhúsnæði mun hærra en þekkist hér á landi og er til að mynda áætlað að um 35% Dana búi í leiguhúsnæði. Með það að markmiði að stuðla að auknu húsnæðisöryggi í sveitarfélaginu, og að í Hveragerði séu fjölbreyttir búsetukostir sem henta öllum, ætti Hveragerðisbær að hafa það markmið að hlutfall almennra leiguíbúða sé mun hærra. Hveragerðisbær getur beitt sér fyrir því að fleiri íbúðir verði byggðar í gegnum leigufélög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða og önnur almenn leigufélög.

Félagslegt leiguhúsnæði

Sama er uppi á teningnum með félagslegt leiguhúsnæði í húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar. Ekki er gert ráð fyrir nægilegri fjölgun slíkra íbúða þó að þörfin sé mikil og alþekkt sé að Hveragerðisbær er eftirbátur annarra sveitarfélaga í að bjóða upp á félagslegt leiguhúsnæði. Hveragerðisbær á nú aðeins sex íbúðir sem eru leigðar út á félagslegum grunni, en það eru tvær íbúðir á hverja 1.000 íbúa. Til samanburðar má geta þess að árið 2020 voru í Reykjavík um 21 félagsleg leiguíbúð á hverja 1.000 íbúa. Í nágrannasveitarfélögum Hveragerðis er staðan líka miklu betri, í Sveitarfélaginu Árborg voru þær árið 2020 um fimm á hverja 1.000 íbúa  og í Sveitarfélaginu Ölfusi um sex. Samkvæmt húsnæðisáætlun Hveragerðis á að fjölga félagslegu leiguhúsnæði um 7-9 til ársins 2031, þó að nú séu þegar 17 aðilar á biðlista. Augljóst er að gera þarf miklu betur til að standa undir þessari lögbundu þjónustu. 

Sókn í stað stöðnunar

Sú aðgerð að fjölga og auka fjölbreytni í búsetuúrræðum í Hveragerði mun eitt og sér tryggja húsnæðisöryggi fjölda fjölskyldna. Í húsnæðisáætlun ættu að vera metnaðarfull markmið um fjölbreytt húsnæðisform frekar en að hafa það að markmiði að halda í núverandi stöðu. Þess vegna þarf nýr meirihluti sem tekur við í vor að gera gagngerar breytingar á húsnæðisáætlun Hveragerðis og mun bæjarmálafélagið Okkar Hveragerði gera það ef það fær tækifæri til þess. 

Njörður Sigurðsson,
bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis