-3.9 C
Selfoss

Skólamál við ströndina

Vinsælast

Skólaganga barna við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri hefur sjálfsagt aldrei verið jafn krefjandi og nú. Ofan á heimsfaraldur og öllum þeim áhrifum sem honum hefur fylgt eru börnin sem ganga í skólann á Eyrarbakka dreifð um þorpið í kennslu sinni. Skólastarf á Stokkseyri er einnig dreift og snúið en mygla hefur fundist í gömlu skólabyggingunni á Stokkseyri og næstum öllum byggingunum á Eyrarbakka. Svo mikil er myglan að byggingarnar eru ónothæfar enn sem komið.

Myglan er í rauninni ekki vandamálið. Myglan sem fannst táknar endalok gálgafrests sveitastjórnar Árborgar. Það hefur, í tæplega 20 ár, legið ljóst fyrir að þessar byggingar eru óboðlegar börnum og kennurum sama hvort þar sé myglu að finna eða ekki. Vandamálið er í raun áhugleysi kjörinna fulltrúa sveitarstjórnarinnar og sinnuleysi gagnvart umbjóðendum sínum og þá sérstaklega börnum á Eyrarbakka og Stokkseyri. Sveitarstjórnendur, síðustu 20 ára, hafa í raun brugðist börnunum, íbúunum og skyldum sínum með því að vera ekki búnir að byggja nýjan skóla á Eyrarbakka. Skólabygging sem átti að vera tilbúin fyrir næstum 15 árum. Einhverjir hafa ekki staðið við orð sín né unnið vinnu sína. Þeirra er skömmin.

Bygging nýs skóla á Eyrarbakka snýst einnig um annað málefni en aðbúnað barna þó börnin skipti hér mestu máli. Bygging skólans snýst líka um afleiðingar sameiningarstefnu sveitarfélaganna þ.e.a.s. fyrir minni byggðir sem sameinast stærri. Fyrir íbúa á ströndinni snýst þetta mál um hvort sameiningin undir lok síðustu aldar hafi verið slæm fyrir íbúanna eða görsamlega hræðileg og hvort kjörnir fulltrúar beri einhverja virðingu fyrir umbjóðendum sínum á Stokkseyri og Eyrarbakka. Þetta er stærri prófsteinn en við fyrstu sýn.

Jón Ólafsson,
Útsvarsgreiðandi í Árborg

Nýjar fréttir