9.5 C
Selfoss

Að vera kostnaðarliður

Vinsælast

Á tyllidögum erum við kennarar framlínustarfsfólk sem gegnir mikilvægasta starfi í heimi. Aðra daga erum við langstærsti kostnaðarliður vinnuveitenda okkar.Um áramót renna kjarasamningar fimm aðildarfélaga KÍ við sveitarfélögin út og skilaboðin úr þeirri átt eru skýr, það er enginn peningur til. Ekki frekar en fyrri daginn.Vitanlega snýst kennarastarfið um margt annað en krónur og aura, t.d. aðbúnað. Kulnunareinkenni eru vaxandi meðal kennara og marga streituvalda má rekja til aðstæðna sem vart geta talist boðlegar.Af eigin reynslu sem deildarstjóri stoðþjónustu við grunnskóla veit ég að málefni nemenda sem þurfa sértæk úrræði geta reynst kennurum og öðru starfsfólki sem að slíkum málum koma afar þungbær. Ekki síst að upplifa dug- og úrræðaleysi þeirra stuðningskerfa sem þarf að leita til: Langir biðlistar eru eftir þjónustu utanaðkomandi sérfræðinga s.s. sálfræðinga, þroskaþjálfaog talmeinafræðinga, að ekki sé talað um þegar um enn erfiðari mál er að ræða þar sem þarf að reiða sig á þjónustu BUGL eða hreinlega að koma barni út af heimili, í mannsæmandi aðstæður.

Að vera grunnskólakennari með 25 barna hóp þar sem 10 eru með einhverskonar greiningar, þar af 2-3 með verulegar raskanir, er ekki öfundsvert hlutverk. Að vera leikskólakennari á yfirfullri og undirmannaðri deild þar sem lítill sem enginn tími gefst til faglegs undirbúnings er ekki síður lýjandi. Að taka svo við þessum börnum í framhaldsskóla sem er undir pressu að koma þeim á næsta skólastig á aðeins þremur árum er ekkert grín heldur.

Í öll þau ár sem ég hef barist fyrir réttindum barna með sérþarfir hef ég ekki tölu á því hversu oft ég hef heyrt að það sem ég fer fram á kosti of mikið. Ég verð að segja að mér leiðist að við kennarar og börnin sem við störfum með séum fyrst og fremst þungbær kostnaðarliður.

Það er staðreynd sem þarf að fara að ræða í alvöru að stór hluti sveitarfélaga ræður illa við rekstur skóla og stoðþjónustu. Í margumræddum PISA könnunum má sjá að marktækur munur er orðinn á árangri nemenda á höfuðborgarsvæðinu og í hinum dreifðari byggðum. Í þessum orðum mínum felst engin stríðsyfirlýsing eða vanþóknun, þetta er einfaldlega augljóst vandamál sem við þurfum að finna skynsamari flöt áí sameiningu – án þess að nokkur einasti maður fari í vörn.

Höfundur er dönskukennari, deildarstjóri og námsefnishöfundurog býður sig fram til formennsku í KÍ. Nánar á xheimir.is

Nýjar fréttir