10 C
Selfoss

300 ár frá andláti Jóns Vídalín

Vinsælast

Sunnudaginn 30. ágúst eru liðin 300 ár frá andláti herra Jóns Þorkelssonar Vídalín í Biskupsbrekku 1720. Af því tilefni verður vígður nýr kross og afhjúpað minnismerki í brekkunni sem Páll Guðmundsson á Húsafelli hefur gert að tilstuðlan Skálholtsfélagsins hins nýja. Jón Vídalín er einn merkasti biskup seinni alda í Skálholti og kunnur af lærdómi sínum. Eitt þekktasta ritverkið hans er Vídalínspostilla. Af þessu sama tilefni hefur verið gefið út nýtt og vandað ritverk um herra Jón Vídalín eftir Torfa K. Stefánsson og ritar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson formála að verkinu. Er það bæði ævisaga hans og valin ritverk sem hafa komið sjaldnar en nokkru sinni út á prenti. Verkið er gefið út af Skálholtsútgáfunni og verður fáanlegt í Kirkjuhúsinu og víðar. Útgáfudagurinn er föstudagur 28. ágúst og verður stutt afhöfn í Vídalínskirkju í Garðabæ kl. 15 af því tilefni. Verður streymt frá henni í ljósi Covic19 aðstæðna. Athöfnin í Biskupsbrekku er öllum opin og eru allir beðnir að gæta að tilmælum almannavarna.

Dagskráin sunnudaginn 30. ágúst er í nokkrum liðum og á nokkrum stöðum. Messur verða í Skálholtsdómkirkju kl. 11 þar sem Jón Vídalín er grafinn og á sama tíma kl. 11 verður tónlistarmessa í Garðakirkju á Álftanesi en þar er Jón Vídalín fæddur. Í Þingvallakirkju verður helgistund kl. 15.30, bæði inni og fyrir utan. Þar verður kirkjuklukkunni hringt sem Jón Vídalín gaf þegar hann hafði verið vígður biskup í Skálholti 1698 og þar verður einnig lesið úr lagaræðunni sem Jón á að hafa flutt við upphaf prestastefnu á Þingvöllum. Vígsluathöfnin og helgistundin í Biskupsbrekku hefst kl. 17.00. Til að ljúka þessum minnisverða degi um meistara Jón Vídalín er hægt að fylgja þeirri leið sem farið var með Jón til greftrunar í Skálholt og verður stutt bæn þar við legsteininn hans í kjallara kirkjunnar. Í Skálholti verður í boði að panta sér kvöldverð í Skálholtsskóla en nauðsynlegt verður að hringja áður vegna allra varúðarráðstafana sem gilda um veitingastaði.

Biskupsbrekka er á Uxahryggjaleið og um 20 km upp frá Skógarhólum. Farið er um malbikaðan veg langleiðina upp að Kaldadalsleið en beygt þar áður inná gamla veginn við vegtenginguna að norðan.

 

 

 

Nýjar fréttir