2.8 C
Selfoss

Skólabörnin komin á stjá – förum varlega

Vinsælast

Það er venjubundinn fylgifiskur haustsins að skólabörnin fari á stjá. Sum hver eru að ganga til og frá skóla í fyrsta sinn og því mikilvægt að sérstakt tillit sé tekið til þeirra. Umferðarþungi við grunnskóla er mikill í upphafi skóladags þegar fjöldi bíla með nemendur innanborðs, hjólandi og gangandi vegfarendur koma saman. Það er rétt að gefa sér góðan tíma og flýta sér ekki um of þegar verið er að skutla börnum í skólann.

Skilja stressið eftir heima

Í samtali við Lögregluna á Suðurlandi kemur fram að gott sé að gefa nokkrum atriðum gaum svo hlutirnir gangi vel fyrir sig. Meðal þeirra atriða er að muna eftir sjálfsögðum öryggisbúnaði eins og endurskinsmerkjum og/eða -vestum ásamt hjálmi fyrir þau sem hjóla. Þá er gott að fara yfir leiðina með yngstu nemendunum og ganga hana nokkur skipti með þeim til að bæði kenna leiðina og benda á hættur sem ber að varast. Það ýtir svo undir að þau taki betur eftir umhverfinu. Hvað hina fullorðnu varðar er gott að hafa í huga að skammdegið nálgast og birtuskilyrði eru að breytast. Þá er gott að hafa það bakvið eyrað að ungir vegfarendur eru margir að fara í fyrsta skipti út í umferðina. Þá mætti leiða hugann að því að leggja örlítið fyrr af stað og skilja stressið eftir. Það vill brenna við að slysin gerast stundum þegar við erum að flýta okkur.

Nýjar fréttir