9.5 C
Selfoss

Jólahugvekja Gunnu Stellu

Vinsælast

Þegar ég og Aron vorum ógift og barnlaus heyrði ég tengdamömmu lesa jólasöguna sem er hér fyrir neðan í fyrsta sinn. Eflaust hefur þrá mín eftir einfaldara lífi verið byrjuð á þessari stundu þó svo það hafi liðið nokkur ár þangað til ég fór markvisst að vinna í því að einfalda. Ég hvet þig þig til að taka boðskap hennar til hjarta þíns og taka skref í átt að einfaldari aðventu og einfaldari jólum í dag.

Mamma horfði þungbúin í kringum sig. Á bekknum voru staflar af smákökum og óhreinum plötum úr bakaraofninum. Mamma hlakkarðu ekki til jólanna? spurði Viðar. Hann sá svipinn á móður sinni og vildi gleðja hana með því að tala um eitthvað skemmtilegt.– Hlakka til? Mér er til efins að jólin komi hingað eins og ástandið á heimilinu er, svaraði mamma.– Koma jólin ekki?. Andlitið á Viðari varð að stóru spurningarmerki.– Ég veit ekki hvaða tíma ég á að hafa til að ljúka öllu sem eftir er, sagði mamma. Pabbi reyndi að tala kjark í mömmu. Hann sagði að þetta væri ekki svo slæmt, þau yrðu bara öll að hjálpast að– Skipulagning er allt sem þarf, sagði hann og hellti kaffi í bolla handa henni. Svo byrjuðu þau að skipuleggja. Tiltekt í hverju herbergi fyrir sig, jólaþvottinn, innkaupin, gjafamálin, matargerðina, skreytinguna, bókstaflega allt og líka hver ætti að gera hvað. Pabbi skrifaði allt saman á spjald sem hann hengdi upp í eldhúsinu. Þetta tók langa stund og Jói stóri bróðir og Hermína systir voru bæði komin heim áður en yfir lauk. Þau voru ekkert yfir sig hrifin þegar þau sáu hverju þeim hafði verið úthlutað.– Á ég ekki að gera neitt?– Viðar minn, já þú þarft auðvitað að gera eitthvað líka, sagði pabbi vandræðalegur.– Ég veit, þú teiknar reglulega fallega jólamynd handa okkur, sagði pabbi. Viðar brosti út að eyrum.– Ég ætla að teikna Jesú í jötunni, sagði hann. Viðar lét heldur ekki á sér standa. Hann náði í stóra hvíta pappaörk og byrjaði strax að teikna. Morguninn eftir vaknaði hann snemma og lauk við myndina. Eftir því sem á daginn leið varð mamma þreyttari og reiðari yfir því hve jólaundirbúningurinn gengi hægt. Viðar reyndi aftur og aftur að ná sambandi við hana. Hann langaði að sýna henni myndina svo að hún sæi að eitthvað væri að verða tilbúið fyrir jólin. En hún var alltaf á hlaupum.

– Nú bónum við gólfið í stofunni í kvöld, sagði pabbi þegar hann kom heim úr vinnunni. Hann snaraðist inn í stofu ásamt mömmu. Þar umturnuðu þau öllu til að geta borið bónið á parketið.– Af hverju eruð þið að rusla svona út? spurði Viðar.

– Það verður svo fínt á eftir, sagði pabbi. Viðar reyndi að hjálpa til en þegar hann hafði misst brúðkaupsmyndina af pabba og mömmu á gólfið og brotið glerið bað pabbi hann að koma sér út úr stofunni.

– Hvað á ég að gera. Mig langar svo að hjálpa til, sagði hann mjóróma.

–Haltu áfram að teikna, sagði mamma.

– Ég er búinn með myndina. Teiknaðu meira og vertu ekki að tefja okkur, Viðar minn, sagði pabbi.– Hvað á ég að teikna meira?– Eitthvað úr jólaundirbúningnum sem er svo skemmtilegur, sagði pabbi. Viðar hugsaði sig vel um og byrjaði að teikna. Á Þorláksmessu var veðrið fallegt. Stórar snjóflyksur liðu til jarðar og trén voru alhvít. Veröldin var ekki lengur sú sama og í gær. Þetta var jólaveröld. Bráðum kemur mamma heim og þá ætla ég að biðja hana að setjast hjá mér og syngja jólasálmana.. En þegar mamma kom heim úr vinnunni hafði hún ekki tíma til að setjast niður og syngja jólasálma. Hún þurfti að sjóða hangikjötið og gera graflax, rækjurétt og alls konar sósur fyrir matarveisluna á jóladag. Svo þurfti að taka til í stofunni og skreyta, fara í búðir og pakka inn gjöfum. Það leið að kvöldi og Viðar var daufur í dálkinn. Það var farið að hlána. Hvít ábreiðan á götunni og gangstéttunum breyttist í mórautt krap. Það var ekkert jólalegt úti lengur. Allt í einu varð hann örvæntingarfullur. Það var heldur ekkert jólalegt inni. Allir voru á hlaupum. Hermína argaði á hann þegar hann missti niður mjólkursopa á nýþvegið gólfið.. Kannski færi þetta eins og mamma var að segja um daginn. Jólin kæmu ekkert til þeirra í þetta skipti. – Mamma, nú skulum við kveikja á kerti og syngja jólalögin, sagði hann. Viltu ekki teikna myndina þína? Hún verður að vera tilbúin á morgun, þá eru jólin. Viðar stundi. – Hún er tilbúin.– Leyfðu mér þá að sjá hana, sagði mamma og geispaði– Viðar sótti myndina. Pabbi og mamma litu á hana. Þau horfðu þögul lengi, lengi. Blaðið var troðfullt af myndum af alls kyns dóti. Það voru rjúpur, graflax, jólaskraut, þvottur, jólakort, jólapakkar, innkaupapokar, hangikjötslæri og smákökur. Efst trónaði brúðkaupsmynd með brotnu gleri. – Hvað er þetta drengur, hvar er Jesúbarnið og jatan? spurði pabbi loks. –Jesúbarnið er þarna, það sést bara ekki. – Sést ekki? Hvers vegna í ósköpunum? spurði pabbi. – Sko, ég teiknaði það fyrst og jötuna og Jósep og Maríu og fjárhirðana og allt. En svo sögðuð þið að ég ætti að teikna jólaundirbúninginn líka og hann tók svo mikið pláss að Jesús lenti undir. Pabbi og mamma sátu þögul dálitla stund. Svo reis mamma á fætur, sótti stórt rautt jólakerti og setti í stjaka. – Komið þið, nú skulum við setjast inn í stofu og syngja eitthvað fallegt, sagði hún. – En mamma, hvað með ísinn og súkkulaðisósuna? –Við förum út í búðina hérna á horninu á morgun og kaupum ís og súkkulaðisósu þar. Viðar sat á milli pabba og mömmu og vandaði sig eins og hann gat. Bjarminn af kertinu var svo fallegur að það var næstum eins og jólin væru komin.  Viðar leit  út um gluggann. Það var aftur farið að snjóa.

Ég óska þér gleðilegra jóla og mundu

Einfaldara líf er að leyfa því sem mestu máli skiptir að hafa forgang en fjarlægja úr lífi okkar það sem kemur í veg fyrir það.

Jólakveðja,  Gunna Stella

 

 

 

Nýjar fréttir