9.5 C
Selfoss

Þróun sorphirðumála á Suðurlandi

Vinsælast

Miklar breytingar hafa orðið á landslagi sorpmála á Suðurlandi á árinu. Eins og alkunna hætti SORPA bs. að taka við úrgangi frá Suðurlandi sl. janúar. Undanfarið hefur því óendurvinnanlegur úrgangur frá sveitarfélögum á Suðurlandi farið fyrst í brennslu í Kölku og síðan ýmist á urðunarstaðinn í Fíflholtum sem staðsettur er á Vesturlandi og svo í Stekkjarvík sem er í nágrenni við Blönduós.  Af þessu er mikið óhagræði sem og kostnaður. Þessi leið var ávallt hugsuð sem bráðabirgðaúrræði meðan leitað væri leiða sem leystu vandann til lengri tíma.

Vandinn er kannski sumpart heimatilbúinn

Dagskráin hafði samband við Jón Valgeirsson, formann stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands og spurði frétta. „Það er margt í pípunum og við búnir að vinna heilmikið verk. Verið er meðal annars að skoða útflutning á sorpi en bæði stóru sorphirðufélögin hafa verið að kanna þá möguleika og komnir langt með það og Íslenska Gámafélagið er byrjað að flytja út sorp frá okkur í sorporkuver. Það gæti verið ein lausn á málinu. Ég hef nú sagt að þetta sé samt ákveðin leti. Til að sporna við úrgangi og þar með kostnaði þarf hreinlega að flokka betur og breyta hugsunarhætti. Bæði íbúar og síðan fyrirtæki, sumarhúsaeigendur og ferðamenn kannski sérstaklega. Lykillinn að minni úrgangi er að kaupa minna, neyta minna og henda minna. Almennt að fara betur með það sem maður hefur því maður er búinn að eyða miklum tíma, peningum og orku í að draga að sér en nennir ekki að koma úrgangi frá sér, segir Jón og vill hvetja til betri flokkunar.

Útflutningur á sorpi raunhæfur möguleiki

Íslenska Gámafélagið hefur hafið útflutning á sorpi, fyrst sorphirðufyrirtækja. ÍGF hreinsar sorp víða á Suðurlandi og því ekki úr vegi að ræða við Jón Þóri Frantszon, forstjóra Íslenska Gámafélagsins um málið. Er þetta ekki galið að flytja sorpið úr landi? „Hvað er galið? Er ekki alveg jafn galið að búa til allan þennan úrgang og urða hann svo í holu þar sem hann getur mengað útfrá sér í grunnvatn og skert byggingarland til áratuga? Við þurfum að hugsa til framtíðarinnar í þessum málum. Urðun er slæmur kostur hvernig sem á þig er litið. Með útflutningi erum við þó að gera eitthvað jákvætt úr þessum úrgangi. Breytum honum í orku þar sem annars væri brennd olía til kyndingar eða orkuframleiðslu. Aðspurður um hvort þetta sé ekki mengun í sjálfu sér að sigla með þetta út með tilheyrandi olíukostnaði ásamt því að kveikja svo í því segir Jón: „Það má mála þessa dökku mynd upp, en málið er að hún er ekki sönn. Bara alls ekki. Ávinningurinn er eins og við tækjum 107 þúsund bíla af götunum strax. Það munar svolítið um það. Þessar tölur koma upp úr skýrslu sem ReSource International vann um málið en ég hvet alla til að kynna sér málið ofan í kjölinn og sjá þetta svart á hvítu sjálfa.

Endurvinnsla alltaf betri kostur

Í samtali við Jón Þóri kemur fljótt fram að endurvinnsla sé lykilþáttur. „Með brennslunni erum við að koma í veg fyrir að við séum að urða það sem við getum ekki nýtt. Fyrsta markmið ætti þó alltaf að vera það að koma í veg fyrir að úrgangur myndist. Númer tvö að endurvinna það sem mögulegt er, bæði af pappír og plasti en líka lífrænum úrgangi. Það litla sem situr eftir ættum við ekki að urða heldur koma í not t.d. með orkuvinnslu með brennslu, segir Jón og leggur áherslu á mál sitt.

Sunnlendingar mættu vanda flokkun

Fram í máli þeirra sem blaðið hefur rætt við er það sé sífellt keppikefli að vanda flokkun. Það sé ekkert einsdæmi á Suðurlandi umfram aðra staði. Lykillinn að lægri kostnaði liggi hjá íbúum sjálfum að miklu leyti. Því minna sem fargað er því minni kostnaður hlýst af sorpmálunum. Svo heppilega vill til að með bættari flokkun og almennt betri meðferð á sorpi nýtur umhverfið góðs af.

Nýjar fréttir