0.4 C
Selfoss

Upprennandi kvikmyndagerðarfólk í Barnaskólanum á Eyrarbakka

Vinsælast

Krakkarnir í 9. bekk Barnaskólans á Stokkseyri og Eyrarbakka víla ekki fyrir sér að skrifa, framleiða og skjóta eins og eina kvikmynd um plast í umhverfinu. Verkefnið var unnið í tengslum við kvikmyndahátíðina BRIM. Dagskráin leit við hjá krökkunum og spurði hvernig gengi að setja sig í spor kvikmyndagerðarmanna. „Það var dálítið þannig að við rannsökuðum aðeins hvernig það er gert, meðal annars á Youtube og fleiri stöðum og lærðum það. Síðan öfluðum við upplýsinga, sem tók mjög langan tíma og bjuggum til handrit. Í dag erum við að klára að skjóta myndina,“ segja krakkarnir.

Viljum hafa áhrif á samfélagið okkar

„Það eru ekki margir sem fatta í raun hvað þetta er hættulegt. Örplast hefur miklar afleiðingar fyrir lífríkið og við erum að reyna að leiða það í ljós í myndbandinu. Smá getur orðið að einhverju miklu og dreifst víða og haft slæm áhrif,“ bendir einn nemenda á. Aðspurð að því hvaða skilaboðum þau vilji koma út segja krakkarnir: „Við viljum fyrst og fremst fræða fólk og ná til allra hér í samfélaginu að passa betur upp á hvað við erum að gera. við vonumst að fólk komi að horfa og sjái hvað það þarf lítið að gera til að hafa einhver áhrif til góðs.“ Umræðan fer af stað um hvað betur megi fara hjá okkur sjálfum því þar sé best að byrja. „Við getum notað minna af dóti, einbeitt okkur að nota minna plast og svoleiðis og notað hlutina lengur.“

Tengja við orðræðu Gretu Thunberg

Spurð um tengingu við þá umræðu sem Greta Thunberg hefur komið af stað segja krakkarnir: „Við tengjum við hana því okkur finnst að vissu leyti verið að varpa yfir á okkur vandamálum sem aðrir hafa búið til. Að við þurfum að takast á við vandamál sem gamla fólkið hefur skilið eftir og er jafnvel enn að. Við viljum auðvitað ekki þurfa að sinna þvi. Vonandi breytist það með myndinni og fólk fer að vanda sig betur. Og við líka,“ segja krakkarnir.

Lærdómurinn gríðarlega mikill hjá okkur

Blaðamaður nefndi að líklega væri það fremur óhefðbundið fyrir marga að hugsa til kvikmyndaframleiðslu sem hluta af skólastarfi og hvort þau lærðu nokkuð á þessu. Krakkarnir blésu á þá fullyrðingu og sögðu: „Við höfum lært mjög mikið á þessu. Sérstaklega um umhverfismálin. Þá er þetta að kenna okkur að afla upplýsinga og koma þeim skýrt á framfæri. Við teljum að það nýtist okkur vel því maður þarf að láta röddina sína heyrast.“ segja krakkarnir að lokum.

Nýjar fréttir