5.4 C
Selfoss

Brunavarnir Árnessýslu fá nýjan tankbíl

Vinsælast

Það var mikil gleði í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi í dag þar sem formlega var tekinn í notkun nýr tankbíll. „Við höfum endurnýjað um einn bíl á ári síðustu þrjú ár, en vatnsflutningsbílarnir okkar voru orðnir gamlir. Það hefur dálítið loðað við að menn hafi tekið gamla mjólkurbíla eða aflagða vatnsflutingabíla í þessi störf. Mér persónulega finnst það ekki eiga við þar sem þessi tæki eru í forgangsakstri og við þurfum að nota þau á neyðarstund og mikilvægt að búnaðurinn sé sem best er á kosið,“ segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri í samtali við dfs.is.

Notið velvilja sveitarfélaganna í Árnessýslu

Eins og áður kom fram hefur verið uppfært talsvert í flotanum  á undanförnum árum og Pétur segir það afar þakkarvert: „Við höfum verið það heppin að sveitarstjórnarfólk í Árnessýslu hefur sýnt þessum málaflokki mikinn skilning. Slökkviliðið hefur nú yfir að ráða 15.000 l tankbíl á Flúðum, 15000 l tankbíl á Selfossi. Þessi nýi, sem við erum að taka í notkun núna er aðeins minni, um 8000 l, og verður staðsettur í Hveragerði.“ Aðspurður um hversvegna tankurinn sé minni segir Pétur: „Það kemur til af því að við erum með þannig vegi, eins og í kringum sumarhúsalönd og annað, sem ekki bera svona þunga bíla. Þessi bíll er þá hugsaður í það að vera léttur og komast auðveldlega að hvar sem er. Við verðum jafnframt með þá nýjung að vera með stóra vatnsbyssu á toppnum. Tankurinn er flatur sem gerir það mun einfaldara. Þar sem verður svo hægt að koma tækinu að getum við bleytt í eða notað t.d. í gróðureldum. Þessar byssur eru einnig góðar í annarskonar bruna, en við erum komnir með færanlega einingu sem getur tekist á við fjölbreytt verkefni,“ segir Pétur.

Fjölnota búnaður er lykillinn

Allir bílarnir þrír eru með svokölluðum krókheysisbúnaði. Það þýðir að ökutækið getur dregið upp á sig ýmsa hluti. Tankinn má því fjarlægja og skipta út fyrir pall, gáma eða annað. „Næsta verkefni hjá okkur er svo að fá pall sem þessir bílar geta sett á sig. Það nýtist okkur m.a. í því að sækja bíla á haugana til klippiæfinga og skila þeim svo aftur. Fyrst og fremst er þó pallurinn hugsaður í það að flytja burtu ökutæki þar sem orðið hefur slys og einhver hefur látist. Við tókum upp það verklag fyrir nokkrum árum að flytja hinn látna af svæðinu í ökutækinu. Hér á stöðinni er svo gert klárt fyrir móttöku á ökutækinu þar sem hinn látni er klipptur út. Þarna erum við að hugsa fyrir því að minnka álagið á þeim sem koma að slysinu. Þetta léttir okkur vinnuna þar sem aðstæður eru oft erfiðar. Ekki bara vinnulega séð heldur miklu frekar sálarlega fyrir okkur sem vinnum þessa vinnu og ekki síst er þetta gert af virðingu við hinn látna.

 

Nýjar fréttir