9.5 C
Selfoss

Hvernig er staður á bragðið?

Vinsælast

Hvernig er Árnessýsla á bragðið? er heiti gjörnings sem fram fer í Listasafni Árnesinga í Hveragerði nk. laugardag, 31. ágúst kl. 14-16. Þá munu listamennirnir Tinna Ottesen og Gosie Vervloessem bjóða til samtals og smökkunar eftir að hafa ferðast um Hornafjörð og Árnessýslu á höttunum eftir náttúrulegu bragði þessara svæða. Þær hafa rýnt í sögur, skoðanir, hugmyndir og fleira sem hefur áhrif á bragð og bragðskynjun og velt fyrir sér spurningum eins og; hvernig eru hugmyndir og skoðanir á bragðið? Getur matur verið ógeðslegur vegna þess að innihald hans stendur fyrir eitthvað sem þér líkar ekki? Í rannsókn sinni hafa þær líka litið til þess að hugtakið náttúra er í dag umdeilt og þær spyrja: Ef við lítum einungis á hið óspillta og ósnerta sem náttúru, er þá hið náttúrulega að klárast? Hvernig getum við nálgast hugtakið náttúra úr nýrri átt og hvernig getum við átt samræður við fólk sem telur sig ekki hafa skoðanir á málinu? Er illgresi á ruslahaugunum náttúrulegt? Hvað með gróðursett skóglendi? Hvað með innflutt matvæli? Eru gæludýrin okkar hluti af náttúrunni? Er það sem er framandi náttúrulegt? Gosdrykkur sem kom á markað nýlega auglýsir sig með því að hann sé „nýtt frá náttúrunni”. Er hann það? Erum við partur af náttúrunni þegar við innbyrðum hann?

Gosie Vervloessem er belgískur gjörningalistamaður sem fæst við lögmál eðlisfræðinnar til heimilisnota og skoðar náttúrufyrirbæri gagnrýnum augum. Frá árinu 2014 hefur hún rýnt í viðfangsefnið að borða; meltingu og meltingartruflanir. Tinna Ottesen fæst í listsköpun sinni við rýmistengda frásögn innan hönnunar, leikhúss, dans, gjörnings og kvikmyndar. Hún hefur unnið með fjölbreyttum hópum skapandi fólks að margvíslegum verkefnum hér á landi og víðar í Evrópu. Hún er höfundur gagnvirku innsetningarinnar Óþekkt, sem sett var upp í Lisasafni Árnesinga árið 2017. Í fyrra buðu þær Gosie og Tinna upp á gjörninginn Hvernig er Hveragerði á bragðið? og buðu þá m.a. upp á bláan hverabakaðan fisk í bananalaufi, gúrku og rósamarengs og hverabökuð rúgbrauð bragðbætt með banana, kerfli eða bjór. Núna beina þær sjónum að bragði Hornafjarðar og Árnessýslu. Verkefnið er styrkt af Vinum Vatnajökuls og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Sem fyrr eru allir velkomnir í Listasafn Árnesinga, aðgangur er ókeypis, líka á gjörninginn Hvernig er Árnessýsla á bragðið og hægt að koma og fara að vild meðan á honum stendur.

Nýjar fréttir