Ég á mér draum…

Öll eigum við okkur draum og jafnvel drauma, en hvað gerum við við þessa drauma? Sumir halda bara áfram að láta sig dreyma á meðan aðrir taka skrefin og láta drauma sína rætast. Í hvorum hópnum ert þú? Hvað er það sem stoppar þig að skoða hvaða skref þú þarft að taka til að láta drauminn þinn rætast?

Ein leið sem hægt er að nýta sér sem stuðning við að láta drauma sína rætast er að fara til markþjálfa. Markþjálfun veitir rými fyrir persónulegan þroska þar sem markþjálfinn styður við markþegan að teikna upp og skoða hvað markþeginn þarf að gera til að vaxa og/eða ná settu markmiði. Við höfum öll svörin innra með okkur en oft gefum við okkur ekki tímann sem við þyrftum til að skoða þau í hlutlausu rými þannig að við sjáum hvað það er sem er að stoppa okkur sem og hvaða skref við þurfum að taka. Í markþjálfunartímanum er unnið með traust og trúnað þannig að rými verður til fyrir markþegan að tala upphátt og velta fyrir sér hinum ýmsum leiðum án þess að vera dæmdur eða gert verði lítið úr hugmyndum og hugsunum.

Er markþjálfun eitthvað fyrir þig? Já, klárlega. Markþjálfun getur hentað öllum, sama hversu stórt eða lítið verkefni er fyrir höndum. Allt frá því að ná betri tökum á daglegu skipulagi, vaxa sem einstaklingur, efla sig sem stjórnanda, brjótast út úr vananum til að ná fram breytingu eða koma einhverju í framkvæmd, sem dæmi.

Það sem þú setur athyglina á vex og dafnar. Ég hvet þig til að skoða og setja athyglina á drauma þína, leyfa þeim að vaxa og stíga skrefin í átt að þeim. Þeir sem vilja fræðast nánar um málið geta flett upp Manifest – verkefnamiðuð markþjálfun á Facebook.

Laufey Guðmundsdóttir

Stjórnenda- og teymismarkþjálfi